Fjölmenni á fróðlegum morgunverðarfundi Glitnis
Fjölmenni var á morgunverðarfundi Glitnis á Ránni í morgun. Þar stigu á stokk þau Ingólfur Bender, forstöðumaður greinigardeildar Glitnis, og Aðalheiður Héðinsdóttir, forstjóri Kaffitárs.
Í máli sínu fór Ingólfur yfir stöðu íslenska hagkerfisins og horfurnar framundan. Yfirskrift framsögu hans var: „Er veislan rétt að byrja eða er henni að ljúka?“
Þar vísaði hann til hins mikla uppvaxtar sem hefur verið í íslensku hagkerfi undanfarin misseri, en hagvöxtur á Íslandi hefur verið tvöfaldur á við það sem gerist í OECD ríkjunum.
Niðurstaða hans var sú að veislunni sé að ljúka en engu að síður sé bjart framundan. Við stefnum nú inn í stöðnunartíma sem sé nauðsynlegur til að vinda ofan af spennu og þenslu sem hefur einkennt hagkerfið. við það skapist jafnvægi fyrir næsta uppskot.
Að mati greiningardeildarinnar verður hagvöxtur á næsta ári tæplega 1%. Krónan mun þá styrkjast aftur eftir að hafa fallið um 15% frá áramótum og mun halda því áfram til 2008 eða 2009. Búast má við aukinni verðbólgu, eða um 6%, en verðbólgan mun þó hjaðna á árunum 2008 og 2009.
Veislunni er því lokið í bili, en engu að síður er ástæða til bjartsýni að mati Ingólfs þar sem hagvaxtarhorfur séu góðar og ekkert því til fyristöðu að fjörið hefjist á ný innan fárra ára. Ísland er nú í 6. sæti yfir þau lönd sem hafa hæstar þjóðatekjur á mann og segir Ingólfur að raunhæft sé að vonast til að Ísland verði komið í 4. sæti eftir 10 ár.
Í framsögu Aðalheiðar fór hún yfir stöðuna hjá Kaffitári sem hefur verið í stöðugum vexti frá stofnun árið 1990.
Fyrir um ári síðan var skipuð stjórn fyrirtækisins en þar sitja Hildur Petersen, formaður, Dagný Halldórsdóttir varaformaður, Árni Tómasson, ritari, Ólafur Kjartansson og Eiríkur Hilmarsson. Á því ári sem síðan er liðið hefur fyrirtækið náð öllum þeim markmiðum sem stjórnin setti sér og er ætlun þeirra að vera sífellt í fararbroddi. Til þess þarf að skerpa áherslur og aðgreina sig frá öðrum.
Með það að markmiði er komin í gang vinna við að endurnýja ímynd fyrirtækisins og eru uppi hugmyndir um að stækka húsnæði fyrirtækisins á Stapabraut um helming á næstunni. Aðalheiður sagði að sköpunarkraftur sé það sem knýji fyrirtækið áfram hvort sem þjóðarbúið sé með veislu eða ekki og víst er að framtíðin er björt hjá Kaffitári.
Í lok fundar voru allir gestir leystir út með dýrindis tertum í boði Glitnis.
VF-myndir/Þorgils