Ferskara sjávarfang á Vitanum
VF kynnir veitingahús á Suðurnesjum
Bryggjusvæðið í Sandgerði er mjög lifandi en þar landa ennþá fullt af fiskibátum. Margir hafa gaman af því að taka rúnt niður á bryggju en rétt hjá gamla vitanum stendur einmitt veitingahúsið Vitinn. Hjónin Brynhildur Kristjánsdóttir og Stefán Sigurðsson eru eigendur veitingahússins Vitans sem sérhæfir sig í fiskréttum þótt lambakjöt og kjúklingur sé einnig í boði á matseðlinum.
Binna og Stebbi byggðu þetta hús og hafa rekið Vitann frá árinu 1982 og verður staðurinn því 37 ára í vor. Þau hafa skipt á milli sín verkum í rekstrinum, hún er framkvæmdastjórinn og þjálfari starfsfólks en hann sér um matseldina enda lærður matreiðslumaður.
Vitinn er opinn alla daga vikunnar frá klukkan 11:30 til 14:00 og um kvöldið frá klukkan 18:00 til 21:00 nema á sunnudögum en þá er lokað. Hópar geta samt pantað aðra tíma. Á kvöldin í janúar mæla hjónin samt með því að fólk panti borð í síma 772 7755 eða sendi tölvupóst á [email protected]
Einstök upplifun fyrir gesti okkar
„Matseðill okkar byggist mest á sjávarréttum. Við viljum hafa verðlagið sanngjarnt. Sérstaða okkar er krabbi og skelfiskur, öðuskel, ostrur, rækjur og kræklingur. Sonur okkar, Sigurður Stefánsson, er kafari og hann hefur sótt öðuskel og krabba sem við höldum lifandi í sjókerjum hér fyrir utan hjá okkur, svo hráefnið verður ekki ferskara. Þetta er einstakt á landsvísu því við erum með okkar eigin sjóker og borholu, þaðan sem við sækjum ferskan sjó. Við erum einnig farin að framleiða okkar eigið hafsalt sem líkist frönsku eðalsalti en það þykir óvenju hreint að gæðum,“ segir Binna.
„Við bjóðum upp á krabbamáltíð þar sem gestir okkar fá krabba og skelfisksúpu. Síðan er krabbi, beitukóngur, öðuskel, ostrur og risarækjur, svona sex til sjö tegundir sjávarfangs en máltíðinni lýkur í heimalöguðum mokkaís. Þetta er svona upplifun fyrir hópa sem hingað koma, lágmarkspöntun er fyrir tvo einstaklinga en við eigum einnig krabbadisk ef um einstaklinga er að ræða. Við erum með gratíneraðan fisk, rauðsprettu og fleira. Við vorum með humar en almennt fæst ekki humar lengur í þeirri stærð sem hentar okkur. Við bjóðum upp á smjörsteikta þorskhnakka með salati og steiktum kartöflum. Rauðsprettu með rótargrænmeti. Fyrir þá sem ekki vilja fisk þá bjóðum við að sjálfsögðu einnig upp á íslenskt lamb og kjúkling. Allir eftirréttir eru heimalagaðir t.d. mokkaísinn og íslenskar pönnukökur með rabbarbarasultu og rjóma er einnig vinsælt,“ segir Stebbi.
Íslendingar vilja tala íslensku á Íslandi
Bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn koma á Vitann til að borða. Binna og Stebbi leggja ríka áherslu á það að íslenska sé töluð á veitingahúsinu við þá sem tala íslensku. Þau vilja gera vel og þjálfa upp starfsfólk sitt þannig að það geti veitt sem mesta og besta þjónustu. Hjónin vinna að ýmsum gæðamálum og vilja einnig vera með í nýsköpun. Þau vilja veita framúrskarandi þjónustu en um leið halda sérstöðu sinni sem lítill, fjölskyldurekinn sjávarréttaveitingastaður á landsbyggðinni. Þau hjónin hafa tekið þátt í þróunarverkefnum á vegum Erasmus plus. Þau eru í samstarfi við ýmsa fagskóla í Evrópu, þar sem þau eru að læra sjálf og taka að sér að þjálfa og leiðbeina öðrum.
„Hingað kemur fullt af Asíubúum því sjávarréttir eru mjög vinsælir á meðal þeirra. Japanskir gestir koma margir hingað. Enska er þá mest talaða tungumálið en við tökum eftir því að íslenskir gestir okkar vilja tala íslensku og virða það ef starfsfólk okkar talar íslensku. Því höfum við lagt áherslu á það að hafa íslenskumælandi þjónustufólk í salnum. Það er samt erfiðara að fá íslenskt starfsfólk en við höfum þá ætlast til þess að erlent starfsfólk okkar fari á námskeið í íslensku og sendum þá sem dvelja meira en þrjá mánuði á íslenskunámskeið hjá MSS. Við höfum verið í sambandi við hótelskóla í Tékklandi og þaðan fáum við nema sem vilja koma til Íslands í þjálfun hjá okkur. Starfsfólk okkar er sérþjálfað eftir vinnureglum. Það er mjög eftirsótt af nemendum skólans í Tékklandi að koma til okkar en við sköffum þeim húsnæði og gerum vel við þau á meðan á dvöl þeirra stendur. Við sýnum þeim landið okkar og fleira sem gerir dvölina skemmtilegri. Þetta spyrst út í skólanum þeirra og fleiri nemendur vilja koma til okkar og myndast hefur biðlisti, það er bara gaman,“ segir Binna sem heldur utan um þróunarstarf Vitans.
Öðuskel og krabba er haldið lifandi í þessum sjókerjum fyrir utan Vitann,
svo hráefnið verður ekki ferskara.
Stebbi og Binna ásamt barnabarni sínu Stefáni Inga sem vinnur stundum í eldhúsinu með afa.
Stebbi með Sigurði kafara, syni þeirra Binnu, sem kafar eftir öðuskel og krabba fyrir foreldra sína.