Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Ferðamenn dvelji lengur á Suðurnesjum
Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar
Þriðjudagur 19. maí 2015 kl. 13:40

Ferðamenn dvelji lengur á Suðurnesjum

– og sæki til miðborgar Reykjavíkur með nýrri hraðlest

Á Ásbrú eru rekin fjögur gistihús sem eru að ná til sín töluverðum fjölda ferðamanna og sá markaður hefur vaxið mikið. Vöxturinn í ferðamannaiðnaðinum hefur verið gríðarlegur á síðustu árum. Vaxtarmöguleikar í gistingu eru miklir á Ásbrú og það eru mikil tækifæri fyrir Suðurnes að taka stærri sneið af þeirri köku sem gisting ferðamanna er, segir Kjartan Þór Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar.

„Ferðaþjónusta er stór atvinnugrein á Suðurnesjum. Ef við horfum á Reykjanes í heild þá eru ofboðsleg tækifæri í ferðaþjónustu bæði í náttúru og tækifærum til afþreyingar. Hér eru tækifæri til að fá fólk til að dvelja lengur og staldra við og njóta þeirra gæða sem hér eru.

Straumurinn hefur verið inn til höfuðborgarinnar á undanförnum árum en samt er nú minnihluti ferðamanna að koma hingað til að sækja borgina sérstaklega heim. Þeir eru að koma til Íslands til að njóta þeirra gæða sem landið býður uppá. Uppbyggingin hefur verið þannig að allt fer til Reykjavíkur. Með betri tengingum við höfuðborgina opnast tækifæri til að fá fólk til að dvelja meira hér. Þau gæði sem eru á höfuðborgarsvæðinu séu þá bara aðgengileg á skjótari hátt,“ segir Kjartan Þór. „Fólk getur allt eins sótt Gullfoss og Geysi frá Suðurnesjum og farið um Suðurstrandarveginn og sótt inn til borgarinnar á veitingastaði eða menningartengda þætti eftir því sem að hentar. Við sjáum víða erlendis að með bættum tengingum við miðborgina þá geti fólk nýtt sér hótel og gistingu fjær miðborginni en átt auðvelt með að sækja þangað.

- Hér vísar þú til hraðlestar á milli Keflavíkurflugvallar og miðborgarinnar. Ferðaþjónustan á svæðinu óttast hana og vill meina að það verði bara brunað burt af svæðinu með ferðamennina.

„Já, ég skil þennan ótta og það er algjörlega tilefni til að hlusta á þessar raddir. Það er enginn að loka augunum fyrir því að það geta orðið breytingar í þessu mynstri sem við höfum í dag. Við bendum á rannsóknir erlendis frá sem styðja ekki þennan ótta. Þær frekar sýna fram á tækifæri til að veita enn frekari þjónustu hér en var áður. Það ruglar fólk að horfa á fjarlægðir sem kílómetra. Í huga fólks eiga fjarlægðir frekar að vera tímatengdar. Hversu fljótt kemstu í eða getur sótt einhver gæði? Ef þú ert kominn með lest sem gengur á milli þessa svæðis og miðborgarinnar á 15 mínútum, þá ertu jafnvel kominn með betra aðgengi að miðborginni en einhver sem staðsettur er í Grafarholti eða Hafnarfirði,“ segir Kjartan Þór.

„Í dag fer stærstur hluti ferðamanna beint inn eftir en við horfum til þess að fá stærri hluta til að dvelja hér og ferðamenn geti sótt héðan í þá hluti sem þeir eru að sækja. Þeir geti tekið bílaleigubíl hér til að fara á Gullfoss og Geysi og þurfi ekki að fara til höfuðborgarinnar nema til að fara þangað dagsferð á söfn og út að borða og komið svo til baka til Suðurnesja.

Hraðlestin virkar í báðar áttir og því er það tækifæri fyrir ferðaþjónustuna hér að toga til sín gesti sem velja það að gista í miðborginni og bjóða upp á ferðir út frá lestarstöðinni við flugstöðina hér. Við erum með aðila hér á Suðurnesjum sem hafa náð miklum árangri í uppbyggingu í tengslum við ferðaþjónustu. Ég hef ekki áhyggjur af þessum aðilum. Það geta auðvitað orðið tilfærslur á  markaði en ég er sannfærður um að kakan mun stækka við þetta. Reynslan erlendis frá er einnig þannig að bílaleigurnar eru alltaf staðsettar við flugvellina og ég er ekki að sjá að þær muni flytja sig frá flugstöðinni hér og setja sig upp í Vatnsmýrinni á dýrasta byggingarlandi Íslands,“ segir Kjartan Þór.

Sjá einnig: Hraðlestin brunar

(Viðtalið er úr blaðauka um Ásbrú sem Víkurfréttir gáfu út í síðustu viku í samstarfi við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar).

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024