Félag kvenna í atvinnulífinu á Suðurnesjum stofnað
„Viljum einblína sérstaklega á styrkleika kvenna á Suðurnesjum með aukinni samstöðu,“ segja þær Guðný Birna Guðmundsdóttir og Fida Abu Libdeh
Stofnfundur Félags kvenna í atvinnulífinu á Suðurnesjum, FKA Suðurnes, verður haldinn í bíósal Duus húsa og á netinu föstudaginn 26. nóvember næstkomandi. Markmiðið með stofnun sérstakrar deildar á Suðurnesjum er að sögn þeirra Guðnýjar Birnu Guðmundsdóttur og Fidu Abu Libdeh að einblína sérstaklega á styrkleika kvenna á Suðurnesjum með aukinni samstöðu.
„FKA styður kvenleiðtoga í að sækja fram og sameinar þær til aukins sýnileika og þátttöku. Félagið er öflugt tengslanet kvenna úr öllum greinum atvinnulífsins og er leiðandi hreyfiafl sem eflir fjölbreytileika atvinnulífsins,“ segir Fida Abu Libdeh sem hefur ásamt Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur undirbúið stofnun nýrrar landsbyggðardeildar FKA á Suðurnesjum.
Styrkleikar kvenna á Suðurnesjum og aukin samstaða
„Tilgangurinn er að hittast reglulega og halda fræðslukvöld í bland við skemmtikvöld þar sem eflt verður tengslanet kvenna ásamt því að fræðast um hin ýmsu rekstrar- uppbyggingar og nýsköpunarmál,“ segir Guðný Birna og bætir við að lögð verði sérstök áhersla á fjölbreytileika.
„Um er að ræða frábæra leið fyrir konur til að efla tengslin og ræða málin, kortleggja tækifærin og taka höndum saman um að skapa hressandi framtíð sem einkennist af jöfnum tækifærum og nýsköpun sem er nákvæmlega það sem þarf til að tækla áskoranir í takt við nýja tíma eins og heimsfaraldur, fjórðu iðnbyltinguna og ná heimsmarkmiðum sem búið er að skuldbinda þjóðina að ná.“
FKA í þjónustu við atvinnulífið
FKA, Félag kvenna í atvinnulífinu var stofnað 1999 og var þá Félag kvenna í atvinnurekstri en meðlimir félagsins eru nú kvenleiðtogar úr öllum stéttum atvinnulífsins.
„FKA Suðurnes verður fjórða landsbyggðardeild félagsins. Við munum eiga samtalið við félagskonur um landið allt, gera okkur gildandi hér á Suðurnesjum, vinna að jöfnum tækifærum og leggja áherslu á að félagskonur hafi gaman saman,“ segir Fida.
Öflugt tengslanet
„Athafnakonur, stjórnendur og leiðtogar úr öllum greinum atvinnulífsins mynda þétt og öflugt tengslanet FKA um land allt og nú er komið tækifærið fyrir konur á Suðurnesjum að fóstra nærumhverfið og finna kraftinn. Konur á Suðurnesjum eru sérstaklega hvattar til að fjárfesta í sér og mæta á stofnfundinn. Með því að vera FKA kona tekur þú þátt í fjölbreyttu starfi, ert partur af hreyfiafli og þessu öflugu tengslaneti kvenna. Sem félagskona tilheyrir þú heild og hægt er að benda á margvíslega verndandi þætti sem fylgja félagastarfi,“ segir Guðný Birna.
„Okkar ósk er að efla þátt kvenna í atvinnulífinu, í rekstri og í stjórnum fyrirtækja. Einnig er mikilvægt að stofna sameiginlegan vettvang þar sem konur geta hist og öðlast styrk í hugviti annarra kvenna. Það verða léttar veitingar á stofnfundinum og þar fræðumst við um FKA og mikilvægi félagsins fyrir konur,“ segir Fida að lokum.
Nánari upplýsingar á heimasíðu Félags kvenna í atvinnulífinu FKA.
Konur heiðraðar
Félag kvenna í atvinnulífinu, FKA kallar eftir tilnefningum frá almenningi og atvinnulífinu sem dómnefnd mun meta og á endanum velja konur sem hljóta FKA þakkarviðurkenningu, FKA viðurkenningu og FKA hvatningarviðurkenningu. FKA Viðurkenningarhátíðin er haldin árlega þar sem konur úr atvinnulífinu eru heiðraðar.
Að vanda verða veittar viðurkenningar á hátíðinni til þriggja kvenna sem hafa verið konum í atvinnulífinu hvatning og fyrirmynd. Konurnar sem tilnefndar eru þurfa ekki að vera félagskonur FKA heldur hvaðan sem er úr samfélaginu, hægt er að tilnefna í einum flokki eða öllum og allir geta sent inn tilnefningu.
„Það er mikilvægt að beina kastaranum að flottum fyrirmyndum, fjölbreytileika og fá nöfn af fjölbreyttum hópi kvenna á lista og nöfn kvenna af öllu landinu, sem dómnefnd mun vinna með og á endanum velja þær konur sem verða heiðraðar af FKA í janúar 2022.“
Verða úrslit kynnt á FKA Viðurkenningarhátíðinni þann 20. janúar 2022 á Grand Hótel Reykjavík.
Hægt er að tilnefna á heimasíðu FKA til og með 25. nóvember 2021.