Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Færeyingar hafa áhuga á Heilsuhóteli Íslands og íþróttaaðstöðu í Reykjanesbæ
Fimmtudagur 6. október 2011 kl. 09:15

Færeyingar hafa áhuga á Heilsuhóteli Íslands og íþróttaaðstöðu í Reykjanesbæ


„Við hjá Heilsuhóteli Íslands erum að leggja drög að vetrardagskránni okkar. Í nóvember og desember ætlum við að koma fram með ýmsa nýja hluti og nýjungar. Fyrir utan hina hefðbundnu heilsumeðferð, sem flestir Íslendingar þekkja, þá erum við með heilsueflingu og margt tengt eftirfylgni,“ segir Ragnar Sær Ragnarsson, framkvæmdastjóri Heilsuhótels Íslands, sem staðsett er á Ásbrú.

Reykleysisnámskeið verða í vetur, þar sem fólki er kennt að hætta að reykja. Þá verður í boði þjónusta í vetur fyrir fyrirtæki sem er annt um heilsu starfsmanna. Þá er hjónum og einstaklingum boðið að koma í lífsstílsbreytingar.

Ragnar Sær segist finna þörfina fyrir hótel eins og Heilsuhótel Íslands. Þá finni hann þörfina hjá íþróttafólki og Heilsuhótel Íslands ætli að fara að sinna meira íþróttahópum sem vilja koma til Reykjanesbæjar og nýta þá aðstöðu sem þar er til íþróttaiðkunar á Reykjanesi öllu. Nefnir Ragnar Sær þar íþróttahúsin, Reykjaneshöllina, Vatnaveröld og fimleikahúsið í Reykjanesbæ, sem sé á heimsmælikvarða.

„Ég veit til þess að frændur vorir Færeyingar vilja koma hingað og nýta þessa aðstöðu. Við munum líka kynna þessa aðstöðu víðar, s.s. á Grænlandi. Þá veit ég af dönskum aðilum sem vilja koma hingað til æfinga,“ segir Ragnar.

Ragnar Sær segir að besta kynningin sem Heilsuhótel Íslands hafi fengið sé af afspurn. Það spyrjist út hvað þar sé í boði og flestir viðskiptavina hótelsins séu þar vegna þess að einhver sem þeir þekki hafi komið þangað til heilsueflingar. Gestir Heilsuhótels Íslands eru flestir íslenskir en um þriðjungur gesta eru erlendir og koma flestir frá Noregi og Færeyjum. Eins hafa verið að koma gestir frá Bretlandi, þar sem Ragnar sér mikil tækifæri og nú síðast hafa verið að koma gestir frá Tyrklandi til heilsueflingar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024