Fæddist með ólæknandi bíladellu
Bílrúðuþjónustan í eigu Keflvíkingsins Sigurðar Guðmundssonar hefur vaxið með ferðaþjónustunni.
„Ég fæddist með ólæknandi króníska bíladellu og ég er bara mjög sáttur með það enda ekki leiðinlegt að vinna við eitthvað sem tengist áhugamálinu,“ segir Sigurður Guðmundsson eigandi Bílrúðuþjónustunnar í Grófinni í Keflavík. Fyrirtæki Sigurðar er eitt af þeim sem hefur vaxið með ferðaþjónustunni án þess að margir hafi tekið eftir því. Ferðamenn sem koma til Íslands taka langflestir bílaleigubíl og margir þeirra lenda í því að fá grjót í framrúðuna. Þá kemur Siggi okkar til skjalanna.
Bílrúðuþjónustan sem er með aðsetur í góðu húsnæði við Grófina í Keflavík fagnar tuttugu ára afmæli á þessu ári og fréttamaður Víkurfrétta heimsótti eigandann í afmælisvikunni. Siggi fékk bíladelluna í æð sem ungur peyi og rifjar upp fyrir fréttamanni að hann hafi fylgt föður sínum eins og skugginn í bílaviðgerðum sem hann vann við. Faðir hans, Guðmundur byggði verkstæðishúsnæðið sem er rétt hjá Bílrúðuþjónustunni. Það hýsir nú Bílaþjónustu Suðurnesja en það þekkja flestir Suðurnesjamenn sem húsnæði Skiptingar á árum áður. Eigendur hennar keyptu það af föður Sigga á sínum tíma.
Hljóp yfir túnið eftir þynni
„Já, pabbi byggði þetta hús árið 1955 og var þarna í mörg ár. Smíðaði meðal annars nokkra bíla þarna en á þessum árum í kringum 1960-1970 voru menn farnir að smíða yfirbyggingar á stærri bíla. Einn þeirra sem pabbi byggði var Dodge Weapon í eigu Guðmundar Tyrfingssonar á Selfossi en hann blasir við öllum sem keyra inn á Selfoss. Guðmundur Tyrfingsson vann með pabba við byggingu húsnæðisins fyrir rúmri hálfri öld og eins við smíði bílsins. Ég man eftir mér sem smástrák að sýsla þarna í kringum þetta hjá pabba og sendi hann mig oft yfir túnið á málningarverkstæðið til að kaupa þynni hjá Birgi Guðnasyni hérna rétt hjá í Grófinni. Þá voru rollur og hestar hér um allt,“ segir Siggi og brosir þegar hann rifjar þetta upp.
Leiðir Sigga áttu síðan eftir að liggja til Birgis þar sem hann starfaði um árabil sem þjónustustjóri og var það góður tími. Breytingar urðu á högum okkar manns árið 1999 þegar ungir menn keyptu reksturinn af Birgi og skömmu síðar stofnaði Siggi eigið fyrirtæki, Bílrúðuþjónustuna. Reksturinn var ekki stór í byrjun en hann hófst í 50 fermetra húsnæði í Grófinni 10.
Í byrjun var það mest vinna fyrir tryggingafélögin en í dag vinnur Bílrúðuþjónustan enn fyrir þau öll en það er jú þannig að þegar bílrúðan skemmist mikið eða brotnar þá koma þau inn og greiða að mestu leyti fyrir skaðann nema þegar hægt er að gera við smáskemmdir. Það kom ný tækni fyrir nokkrum árum þar sem hægt er að laga litlar „stjörnur“ sem koma við grjótkast og þegar það gengur þá þarf bíleigandinn ekki að greiða neitt. „Pabbi var bifvélavirki og byrjaði feril sinn sem slíkur hér í Grófinni en ég hafði í upphafi meiri áhuga á boddíinu og málaði það í mörg ár en svo var ég allt í einu komin í bílrúðuskipti,“ segir Sigurður sem sagðist ekki hafa séð fyrir sér vöxt fyrirtækisins sem átti eftir að tengjast miklum vexti í ferðaþjónustunni.
„Það þurfti að skipta um rúður þegar ferðamenn höfðu skilað bílaleigubílunum og málin þróuðust þannig að bílaleigurnar vildu að ég gerði meira fyrir bílana.“
200 bílar við flugstöðina
Við förum aftur til ársins 1999 og Sigurð vantaði að efla viðskiptin sem voru ekki næg á þeim tíma. „Það vildi svo til að við flugstöðina voru komnir um 200 bílaleigubílar. Þetta var þó aðeins í mýflugumynd miðað við í dag, eins og eitt hringtorg og malarplan. Ég sá sæng mína útbreidda og hafði samband við bílaleigunar sem þá voru Bílaleiga Akureyrar, Hertz og Avis. Ég ræddi við þær og var vel tekið. Það þurfti að skipta um rúður þegar ferðamenn höfðu skilað bílaleigubílunum og málin þróuðust þannig að bílaleigurnar vildu að ég gerði meira fyrir bílana. Og það varð úr að ég græjaði það helsta, mældi olíuna, athugaði dekkin, þreif bílana og gerði þá klára í næstu útleigu. Pabbi skutlaði mér upp eftir klukkan sex á morgnana. Ég náði í bílana, græjaði þá og skilaði þeim aftur við flugstöðina. Pabbi hjálpaði mér í þessu og þannig gekk þetta næstu árin. Bílunum fjölgaði og voru orðnir um 4 til 5 þúsund við flugstöðina fimm árum síðar.“
Nokkrum árum eftir stofnun Bílrúðuþjónustunnar réði Sigurður fyrsta starfsmanninn á verkstæðið en það var Haukur Hauksson og hefur hann verið hjá honum síðan. Faðir Sigga kom inn á verkstæðið á svipuðum tíma en sá gamli dó árið 2013. Hann var alla tíð mikið snyrtimenni og lagði áherslu á það við soninn og það má greinilega sjá þegar maður kemur inn í Bílrúðuþjónustuna. „Hann var bara þannig, vildi hafa lúkkið í lagi, að við vönduðum okkur í vinnu og svo vildi hann hafa allt snyrtilegt á staðnum. Svo passaði hann upp á að ég væri með peningamálin í lagi og fleira við reksturinn. Við áttum góð ár hér saman,“ segir Siggi og brosir þegar hann rifjar það upp.
Hraður vöxtur
Reksturinn hefur síðan vaxið í takt við vöxt ferðaþjónustunnar því 80% allra ferðamanna tekur bílaleigubíl þegar þeir koma til landsins. Árið 2012 fjölgaði bílum um tvö þúsund og þannig hefur vöxturinn verið árlega og í dag er um 25 þúsund bílar við flugstöðina og bílaleigurnar eru líka miklu fleiri en fyrstu árin.
„Þetta hefur verið ótrúleg aukning og um tíma var þetta á mörkunum að vera of mikið en samt alltaf mjög skemmtilegt. Mér hefur aldrei leiðst og hlakka til að mæta til vinnu á hverjum degi,“ segir Siggi og þarf að hugsa sig um þegar hann er spurður hversu margar nýjar rúður fari í bíla frá honum að jafnaði á dag. „Mest höfum við sett 33 nýjar rúður í bíla á einum degi en svo er þetta svona nálægt einni á klukkustund. Það er oft gaman að koma hingað eftir helgarnar þegar lyklaboxið okkar er orðið fullt,“ segir Siggi.
Hröð þróun í tækni
Húsnæði fyrirtækisins hefur stækkað á undanförnum árum og Siggi hefur teygt sig suður eftir húsalengjunni. „Við erum með stóran lager af rúðum og það er ýmislegt í pípunum,“ segir okkar maður leyndardómsfullur og fer yfir breytingar og þróun í framrúðum á rúmum áratug. Nú eru nýjustu rúðurnar með tvær myndavélar sem stýra margvíslegri tækni sem bíllinn er kominn með, t.d. eins og hraðastýringu og árekstrarvörn. Það þarf því að hafa þessa hluti í lagi og blaðamaður fær að sjá nýjustu stillingargræjuna sem notuð er til að setja slíkar rúður í nýjustu bílana. „Bílarnir eru að þróast á ofurhraða og framrúðan þar á meðal. Maður þarf að hafa sig allan við að vera á tánum en það er bara mjög skemmtilegt,“ sagði Sigurður að lokum.