Epoxy gólf farið að ryðja sér til rúms á heimilum
Vatnshelt og slitsterkt. Verkefnastaðan góð. Vantar meiri mannskap.
„Okkur vantar eiginlega fleiri klukkutíma í sólarhringinn til að geta sinnt þeim verkefnum sem okkur bjóðast,“ segja feðgarnir Hreinn Líndal Jóhannsson, Torfi Már og Hreinn Líndal Hreinssynir en þeir eiga fyrirtækið Epoxy gólf sem hefur verið starfrækt síðan 2010. Hreinn er frá Bolungarvík en settist að í Njarðvík þegar hann var níu ára gamall og hefur verið í epoxýbransanum í langan tíma. Bræðurnir ætluðu ekki að feta slóð föðurins, Torfi er menntaður fjármálaverkfræðingur og Hreinn er rafvirki en þar sem pabbinn sá ekki fram úr verkefnunum ákváðu bræðurnir að koma inn í reksturinn.
Epoxy er orð sem fólk gæti tengt við lím, málningu og gólfefni. Efnið ruddi sér til rúms hér á Íslandi fyrir tæpum fimmtíu árum síðan en var fundið upp árið 1934 af þýskum efnafræðingi. Það sem aðgreinir epoxý frá öðrum efnum er helst hversu vatnshelt og slitsterkt það er. Torfi og Hreinn fóru yfir sögu föður þeirra í epoxýbransanum, hvað greini epoxý frá öðrum efnum og hvernig staða fyrirtækisins er í dag.
„Pabbi fór að vinna við þetta fyrir rúmum fjörutíu árum síðan og stofnaði sitt eigið fyrirtæki nokkrum árum síðar með öðrum aðila. Eftir að hafa farið út úr því, stofnað annað fyrirtæki sem var í Hafnarfirði, ákvað hann að fara út úr því og gera þetta sjálfur. Hann stofnaði því Epoxy gólf árið 2010, við bræðurnir komum síðan inn í það með honum og í dag eigum við fyrirtækið saman.
Vatnshelt og slitsterkt
Við gerum meira en bara leggja klassísk epoxýgólf, erum með fleiri efni og getum boðið upp á annað útlit en hið klassíska iðnaðargólf. Það er alltaf að verða algengara að fólk hafi gólfin heima hjá sér í epoxý en mest er efnið notað þar sem votrými er því það sem sker epoxý frá öðrum efnum er hve vatnshelt og slitsterkt efnið er. Í reglugerðum í matvælavinnslu er kveðið á um að gólf þurfi að vera samskeytalaus svo bakteríur geti ekki komið sér fyrir, þess vegna hentar epoxýgólf mjög vel og því eru nánast allar matvælavinnslur með slík gólf. Við erum mikið að vinna fyrir útgerðarfyrirtækin og erum farin að setja svona gólf í skipin líka. Við erum einnig með pólýúretanlausnir sem heita Deco-Line og eru framleiddar af Quartzline í Hollandi. DecoLine-gólfefnin ættu að vera á öllum heilbrigðisstofnunum, skólum, leikskólum og víðar, þá væru mygluvandamál ekki eins algeng því efnið er myglufrítt.“
Vantar fleiri klukkustundir
Verkefnastaðan hjá feðgunum er þannig að þá vantar fleiri klukkustundir í sólarhringinn. „Mest okkar vinna fer fram á höfuðborgarsvæðinu, líklega 70–80%. Við erum með fimm manns í vinnu, erum því alls átta og þurfum í raun að bæta við okkur mannskap. Við höfum verið að auglýsa en fáum engin svör, þeir sem kunna þessa iðn eru einfaldlega að gera þetta sjálfir. Það er mikið að gera hjá öllum iðnaðarmönnum í dag og erfitt að fá góða menn. Okkar iðn fellur í raun á milli þess að vera múrari og málari, það er ekki hægt að fara í skóla og læra þessa iðn og því þarf sá sem vill læra þetta að ráða sig í vinnu hjá slíku fyrirtæki og læra iðnina þannig. Við tökum ekki fleiri verkefni að okkur en við ráðum við og flestir eru tilbúnir að bíða eftir því að við getum tekið verkefnið að okkur. Það skeikar venjulega ekki meira en einum degi á fyrirfram ákveðnum degi, þar til við getum hafið viðkomandi verk. Fólk kann að meta það en auðvitað fer það orð af iðnaðarmanninum að hann mæti ekki á tilsettum tíma. Fyrir því geta samt verið svo margar ástæður, smiðurinn getur t.d. ekki byrjað fyrr en píparinn er búinn með sitt og svo koll af kolli. Það kemur alveg fyrir að við lendum í slíku líka en þá reynum við að hoppa í önnur minni verk á meðan. Lágmarkstími á okkar verkefni er venjulega þrír dagar, efnið þarf að þorna og allt eftir stærð verkefnis, getur það tekið nokkrar vikur en mest höfum við verið tæpar tvær vikur með eitt verk.
Með framtíð fyrirtækisins er það að segja að við sjáum ekki fram úr verkefnum eins og sakir standa en okkur grunar að sóknarfærin liggi inni á heimilum því eins og áður kom fram, það er alltaf að verða vinsælla að leggja epoxý, Microcement eða DecoLine hjá fólki. Við bjóðum upp á góða þjónustu, hjálpum fólki að velja sitt útlit og gætum í raun gert mun meira á því sviði en á meðan við höfum nóg að gera, kvörtum við ekki,“ sögðu bræðurnir í lokin.