Public deli
Public deli

Viðskipti

Eldgosið er búið að koma Reykjanesinu á heimskortið
Eyþór Sæmundsson og Þuríður Aradóttir Braun frá Markaðsstofu Reykjaness.
Föstudagur 1. október 2021 kl. 14:46

Eldgosið er búið að koma Reykjanesinu á heimskortið

Yfir 400 hótelherbergi bókuð. Fleiri stórar ráðstefnur í bígerð. Skiptir Suðurnesin miklu máli.

„Við erum að hoppa fimmtán ár fram í tímann hvað varðar markaðssetningu á áfangastað. Nú getum við breytt áherslum í öllu markaðsstarfi því svæðið hefur fengið gríðarlega umfjöllun og kynningu um allan heim. Verðmæti þessarar kaupstefnu hleypur líklega á hundruðum milljóna króna og ljóst að margir þjónustuaðilar, fyrirtæki og veitingastaðir munu njóta góðs af henni. Það verður síðan ekki síður mikilvægt starfið í framhaldi af kaupstefnunni – að fylgja henni eftir,“ segir Þuríður Aradóttir Braun, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Reykjaness, en 600–700 manns munu sækja Vestnorden Travel Mart ferðakaupstefnuna sem fram fer í Hljómahöllinni í Reykjanesbæ 5. til 8. október nk.

„Þetta er geysistórt tækifæri fyrir ferðaþjónustuna á Suðurnesjum. Við höfum verið að vinna að þessu í fimm til sjö ár, að vinna að því að geta tekið við svona stórum viðburði. Það var möguleiki í fyrsta skipti í fyrra að geta tekið á móti svona stórri ráðstefnu þar sem það þarf að vera hægt að bjóða upp á að minnsta kosti 600 gistirúm með baði. Síðan þarf að vera hægt að bjóða upp á aðstöðu til að halda kaupstefnuna sjálfa, viðburði tengda henni, afþreyingu og veitingar. Við þurfum að hafa alla þessa þætti  inni. Svo fengum við eldgos í kaupbæti og slökun á heimsfaraldri. Reyndar þurftum við að fá undanþágu hjá sóttvarnaryfirvöldum til að halda svona fjölmenna kaupstefnu,“ segir Þuríður.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Þuríður segir að allt skipulag og ráðstafanir taki mið af sóttvörnum sem verða í hávegum hafðar og gestir frá lituðum löndum munu þurfa gangast undir próf og sýna fram á neikvætt próf, til að geta sótt ráðstefnuna.

Á kaupstefnunni verða samankomin öll helstu ferðaþjónustufyrirtæki á landinu til að kynna vöruframboð sitt fyrir erlendum ferðaþjónustuaðilum sem sækja kaupstefnuna. Reiknað er með yfir 530 þátttakendum í ár, þar af 400 erlendis frá. Alls eru um 400 hótelherbergi bókuð í Reykjanesbæ og nágrannasveitarfélögum nær alla næstu viku.

Í tengslum við kaupstefnuna verða farnar þrettán ferðir um allt Reykjanes þar sem fyrirtæki úr ferða- og veitingageiranum taka mikinn og virkan þátt.

Það að eldgos hafi byrjað á svæðinu fyrr á árinu setti Reykjanesið á kortið svo um munar.

Við erum með á borðinu aðra stóra alþjóðlega ráðstefnu á næsta ári og vonandi mun þessi aukni áhugi á Suðurnesjum ýta við fjárfestum sem gætu séð tækifæri í því að byggja hér upp enn frekari aðstöðu. Innviðir í ferðaþjónustu hafa styrkst verulega sem gera okkur kleift að halda stóra viðburði á svæðinu en það eru vissulega tækifæri til frekari uppbyggingar í þeim efnum til framtíðar litið,“ segir Þuríður.

Á heimasíðu Íslandsstofu, sem er framkvæmdaraðili ferðakaupstefnunnar í samstarfi við aðila í Færeyju og Grænlandi (NATA), kemur fram að Vestnorden Travel Mart sé mikilvægasta ferðakaupstefnan sem haldin er á Norður-Atlantshafssvæðinu. Meginhlutverk hennar sé að móta sameiginlega stefnu í ferðamálum fyrir Grænland, Ísland og Færeyjar og styrkja ýmis verkefni sem efla ferðaþjónustu innan svæðisins. Hún er einnig frábært tækifæri til að kynna Ísland sem áfangastað. Ferðakaupstefnan er haldin annað hvert ár á Íslandi og hin árin til skiptis í Færeyjum eða á Grænlandi.