Eitthvað fyrir bragðlaukana á Brúnni
Jóhann Ingi Reynisson er nýr yfir matreiðslumeistari á The Bridge á Courtyard by Marriott
„Það er frábært að vera komin aftur í eldhúsið. Það er gaman að fylgjast með uppbyggingunni á Marriott hótelinu hér hjá heimamönnum við stjórnvölinn og við erum að bjóða upp á frábæran mat og veitingar,“ segir Jóhann Ingi Reynisson, matreiðslumeistari, en hann er nýráðinn yfirmatreiðslumeistari á veitingastaðnum The Bridge á Courtyard by Marriott hótelinu í Keflavík.
Eldað ofan í fræga
Jóhann á ekki langt að sækja hæfileika í eldhúsinu en faðir hans, Reynir Guðjónsson, er einnig matreiðslumeistari og margir muna eftir honum úr yfirmannaklúbbi Varnarliðsins. Þá er Guðjón Vilmar, annar tveggja bræða Jóhanns, líka matreiðslumaður. „Þetta er eitthvað í blóðinu en það bjargaði mér nú þegar heimsfaraldur skall á að ég var með byrjaður að mennta mig í smíðum líka. Ég er búinn að vera að smíða megnið af tímanum í Covid eftir góða tíma á Northern Light hótelinu í Grindavík. Ég missti starfið þegar kófið hófst en var afskaplega ánægður að eigendur Aðaltorgs og Marriott höfðu upp á mér,“ segir Jóhann Ingi sem hefur kokkað ofan í marga í gegnum tíðina, suma frægari en aðra. Einn þeirra er Norðmaðurinn Ole Gunnar Solskjær, núverandi þjálfari Manchester United en þá þjálfari Molde. Jóhann starfaði í sex ár eftir hrun á einu stærsta ráðstefnuhóteli Noregs í bænum Molde en iðnina lærði hann hjá Axel Jónssyni, matreiðslumeistara á Glóðinni og Veisluþjónustunni og stofnanda Skólamatar, og Jóhann hefur líka starfað víðar í greininni.
Ferskleiki og nýr matseðill
Jóhann segir að það sé lögð mikil áhersla á ferskt hráefni í réttunum á The Bridge, veitingastað hótelsins, í kjöti, fiski og grænmeti. Allar sjávarafurðir komi frá Humarsölunni í Reykjanesbæ. Þá sé eingöngu notað hreint krydd án salts og sykurs frá Kryddhúsinu í Hafnarfirði. Svo kemur þari fyrir í nokkrum réttum og aðspurður sagði Jóhann hann koma úr fjörunum við Garðskaga og víðar á Suðurnesjum. „Mögnuð fæða,“ segir hann.
Jóhann er nýbúinn að setja saman nýjan matseðil fyrir The Bridge og þar kennir margra grasa sem ritstjóri Víkurfrétta og nokkrir gestir fengu að njóta og prófa – alla forrétti, aðalrétti og eftirrétti. „Við reynum auðvitað að höfða til sem flestra með fjölbreytileika og leikum okkur með bragðlaukana,“ segir matreiðslumeistarinn sem fór mikinn í eldhúsinu þetta kvöld.
Meðal forrétta má nefna sjávarréttasúpu, grillaða hörpuskel og hreindýra-carpaccio, allt mjög ljúffengir réttir en carpaccio-ið fékk hæstu einkunn en það er afar sjaldgæft að fá slíkan rétt úr úrvals hreindýrakjöti. Þeir sem elska villibráð ættu ekki að láta þennan rétt framhjá sér fara.
Fimm aðalréttir komu á borð og fengu allir mjög góða dóma hjá Víkurfréttasmökkurum. Í sjávarfangi er boðið upp á paneraðan silung sem er á diski með svepparagúi og fenell ásamt fleiru, eitthvað sem fiskiaðdáendur ættu að elska en grillaður skötuselur var einnig mjög góður. Hann var borinn fram með graskersmauki, súrmjólkurfroðu og fleiru sem gladdi bragðlaukana. Kjötaðdáendur verða ekki sviknir því á matseðlinum er braseraður lambaskanki sem er hægeldaður í þrjár klukkustundir. Með honum kemur rósmarínsósa og gott meðlæti. Sous Vide Jack Daniels nautalund með djúpsteiktum sveppum og karamellulaukmauki verður örugglega vinsæl, flottur réttur. Heyra mátti „matarstunur“ þegar VF-smakkarar fengu þessa ljúffengu rétti í munninn. Þeir sem vilja ekki kjöt eða fisk geta unað glaðir við sitt því frábær grænmetisréttur er í boði, marineruð sellerírót í sítrónuolíu, hvitlauks- og Sous Vide-elduð með hvítsúkkulaði og fleiru sem hreinlega bráðnar í munni. Réttur sem kom fiski- og kjötfólki VF á óvart.
Desertdekur
Í lokin var dekrað við smakkarana sem brögðuðu á fjórum eftirréttum sem var hver öðrum betri. Eldgos (en ekki hvað) er æðisleg lakkrískaka, síðan kemur annar spennandi eftirréttur sem er After Eight piparmintu- og hvítsúkkulaði. Þá er lagkaka að hætti mömmu sem er m.a. með rabbabarageli og síðast en ekki síst eplakaka með marsipani og karamellusósu. Smakkararnir eru áhugamatgæðingar og nutu frábærra eftirrétta sem allir hurfu af diskunum því þeir voru svo góðir.
Á The Bridge eru einnig „klassískir“ réttir í boði sem fengu ekki pláss hjá VF-smökkurum að þessu sinni. Hver veit nema að önnur ferð í þá verði tekin síðar. Þar er í boði fiskur og franskar, steikar- og klúbbloka, kjúklingasalat, pasta og borgari. Hér er ekki fjallað sérstaklega um vín en úrvalið er gott og þá er að sjálfsögðu kokteilaseðill.
Smekkur fólks er misjafn í mat og því var misjafnt hvað smökkurum þótti best. Nú er það verkefni ykkar kæru lesendur að skella ykkur á Brúnna við Aðaltorg. Það eru svo sem ekki slæmar fréttir fyrir þá sem vilja kíkja í heimsókn því í nóvember er tveir fyrir einn af öllum réttum í hádeginu og síðan ætla Jóhann og hans fólk í eldhúsinu að bjóða upp á Þakkargjörðarhátíð 25. nóvember allan daginn. Jólahlaðborð verður í boði frá 15. nóvember til 18. desember þannig að það er óhætt að segja að það sé stöðug veisla framundan á Brúnni við Aðaltorg.
Hreindýra-carpaccio sló í gegn hjá VF-smökkurum.
Fiskisúpa rennur ljúft í skál....
Paneraður silungur með svepparagú, hrámarineruðu fennel, grænum baunum, jurtakartöfluböku og vanillusafransósu er vel heppnaður réttur.
Brasseraður og hægeldaður lambaskanki. Hvítkálsmauk, steiktar rófur, sellerírót, gulrætur og beikon, steinseljurótar-kartöflu-stappa, rósmarínsósa ... er eitthvað sem lofar virkilega góðu.
Grillaður skötuselur með graskersmauki, súrmjólkurfroðu, vorlauk, tómat og fleiru ...
Marineruð Sellerírót í sítrónuolíu, hvítlauk, rósmarin og sætkartöflumauk með hvítsúkkulaði, granatepli, hnetu-blómkáls cous-cous. Frábær grænmetisréttur.
Já, og Bridge salat.
After eight eftirréttur....ummmm....
Lagkaka að hætti mömmu...
... og mögnuð marsípaneplakaka í eftirrétt. Kaffi á kantinum skemmir ekki.