Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Eigendaskipti á Íslenska gámafélaginu
Þriðjudagur 7. ágúst 2007 kl. 11:09

Eigendaskipti á Íslenska gámafélaginu

Jón Þórir Frantzson, framkvæmdastjóri Íslenska Gámafélagsins, hefur gert samning um kaup á rúmlega 90% hlut í fyrirtækinu. Njarðvíkingurinn og bæjarfulltrúinn Ólafur Thordersen er þar með búinn að selja alla eign sína í fyrirtækinu. Kaupverð fæst ekki uppgefið en að sögn Ólafs var tilboðið það áhugavert að hann ákvað að láta slag standa. Saga Capital Fjárfestingabanki sölutryggir lánsfjármögnun og hlutafé vegna kaupanna.

 

Íslenska Gámafélagið var stofnað árið 1999 við sameiningu Njarðtaks og Gámafélagsins. Á undanförnum árum hefur Íslenska Gámafélagið keypt eða sameinast alls tólf fyrirtækjum í svipuðum rekstri og er nú í fremstu röð á Íslandi á sínu sviði. Velta félagsins á síðasta ári var tæpir 2,2 milljarðar króna. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Gufunesi í Reykjavík en auk þess er félagið með starfsstöðvar á Suðurnesum, í Árborg, Vestmannaeyjum, Reyðarfirði, Akureyri og á Snæfellsnesi. Starfsmenn fyrirtækisins eru ríflega 200.

 

„Ég mun starfa við þetta eitthvað áfram en svo sér maður bara til. Ég er búinn að starfa við þetta frá upphafi Njarðtaks í 26 ár þannig að kannski var kominn tími á að breyta til ,“ svarar Ólafur aðspurður um það hvað taki við eftir söluna á fyrirtækinu. „Ætli maður fari ekki bara aftur í handboltann,“ bætir hann við og skellir upp úr.

Eins og áður segir nær saga Njarðtaks 26 ár aftur í tímann og í byrjun var fyrirtækið heldur lítilfjörlegt miðað við hvað síðar varð. „Við byrjuðum 1981 með einn pallbíl sem við keyptum á 90 þúsund. Fengum hann á afborgunum, 10 þúsund kall á mánuði,“ segir Ólafur og hlær  við minninguna.

 

Ólafur segir að fólk muni ekki sjá neinar verulegar breytingar við eigandaskiptin. Fyrirtækið muni áfram vera með öfluga starfsemi á Suðurnesjum og halda áfram að styðja við ýmis góðgerðarmál á svæðinu.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024