„Ég geri nú ráð fyrir að sumarblómin fari að rjúka út“
– segir Gunnur Magnúsdóttir sem er nýtekin við sem verslunarstjóri BYKO á Suðurnesjum en Gunnur, sem er viðskiptafræðingur að mennt og með MPM-gráðu í verkefnastjórnun, hefur starfað hjá BYKO í eitt og hálft ár og segist ákaflega spennt fyrir starfinu enda myndi hún og samstarfsfélagar hennar flottan hóp. Víkurfréttir ræddu Gunni um nýja starfið.
Gunnur er fædd og uppalin í Keflavík en áður en hún hóf störf hjá Byko var hún hótelstjóri hjá Geo Hotel í Grindavík. „Svo hef ég reyndar verið í hinum og þessum störfum í gegnum tíðina, í Covid datt ég inn í fasteignasölu en ég er fasteignasali líka,“ segir hún.
Gunnur sem hefur ágætis reynslu af stjórnunarstörfum hjá Byko þar sem hún hefur fengist við skemmtileg og krefjandi verkefni.
„Ég var í eitt og hálft ár sem verkefnastjóri hjá Byko og mitt fyrsta verkefni var að flytja grófvöruhlutann, Byko leigu, af Höfða og út á Selhellu. Aðstaðan upp á Höfða var öll í gámum en fluttist í stórt og mikið húsnæði sem stendur þarna hjá Icelandair, svo það var mikil og skemmtileg breyting.“
Þú virðist kunna vel við þig hjá Byko.
„Það er bara æðislegt. Samstarfsfólkið mitt er flottur hópur, það er góður vinnuandi og allt til fyrirmyndar.“
Hefur verið mikið að gera það sem af er sumri?
„Já, það hefur verið talsvert að gera en vegna veðurs þá hefur sumarinnkaupum seinkað að einhverju leyti. Ég geri nú ráð fyrir að sumarblómin fari að rjúka út með batnandi veðri – ásamt öllu hinu,“ segir Gunnur bjartsýn.
Fólk hefur notað Covid-tímann mikið til að vinna í allskyns viðhaldi á sínum fasteignum, heldurðu að fólk verði síður verkefnaglatt nú þegar sá tími er liðinn?
„Það eru auðvitað hinir og þessir sem eru með útþrá og á faraldsfæti – en fólk er að klára verkefnin sem það hefur byrjað á undanfarin ár og sumir eru jafnvel að bæta við. Svo þarf að sinna garðinum og hitt og þetta. Ég get ekki sagt að ég hafi fundið fyrir því að fólk sé neitt að framkvæma minna núna“
Verkfærakynningar og fleira
Gunnur segir að reglulega séu einhverjar uppákomur og viðburðir BYKO.
„Nú síðast var sumarhátíð sem var haldin á laugardaginn og heppnaðir afskaplega vel. Í vikunni þar á undan komu sérfræðingar og kynntu verkfæri frá Bosch. Svona verkfærakynningar eru ekki einungis fyrir fagmenn því allir sem vettlingi geta valdið fá upplýsingar um vélar og tæki sem henta þeim í hverju því verkefni sem fólk tekur sér fyrir hendur.“
Gunnur sagði að lokum að framundan sé því spennandi sumar og hún hlakki til að þjónusta íbúa Suðurnesja í þeirra framkvæmdum.