easyJet flýgur á milli Íslands og Sviss
easyJet, sem er eitt umsvifamesta flugfélag í Evrópu, hyggst hefja beint áætlunarflug frá Íslandi til borgarinnar Basel í Sviss. Basel Mulhouse-Freiburg flugvöllurinn er einn af annasömustu flugvöllum í mið-Evrópu vegna nálægðar hans við vinsæl ferðamannasvæði í Frakklandi, Þýskalandi og Ítalíu og mikilvægar viðskiptamiðstöðvar í Sviss.
Fyrsta flugið til Basel verður farið 2. apríl nk. og flogið verður tvisvar sinnum í viku, á miðvikudögum og laugardögum, fram í lok september. Farmiðar eru nú komnir í sölu á heimasíðu félagsins, www.easyJet.com. Lægsta fargjaldið er í kringum 6.295 kr. aðra leið með sköttum.
Basel er fimmta flugleið easyJet frá Íslandi en félagið flýgur þegar í beinu flugi frá Keflavík til Lundúna, Manchester og Edinborgar allt árið um kring, auk þess sem beint flug til Bristol hefst á vegum félagsins eftir nokkrar vikur.
Basel er þriðja stærsta borgin í Sviss. Í sjálfri borginni búa tæplega 170 þúsund manns en íbúarnir eru alls um 850 þúsund séu nágrannabyggðir taldar með. Basel er falleg miðaldaborg sem liggur við landamærin að Frakklandi og Þýskalandi, á svæði sem kallað er Þrílandahornið (þ. Dreiländereck), og er borgin klofin í tvennt af Rínarfljóti sem rennur í gegnum miðbæinn. Margt er að skoða í borginni, söfn og markaði auk þess sem þar má finna fjölmarga spennandi matsölustaði. Aðeins 35 km eru frá Basel til Mulhouse í Frakklandi en einnig er stutt til Freiburg í Þýskalandi (70 km), Zürich í Sviss (85 km) og til Zug í Sviss (100 km) þar sem mörg alþjóðleg fyrirtæki hafa höfuðstöðvar sínar, m.a. lyfjafyrirtækið Actavis. Einnig eru aðeins um 140 km til Strassborgar í Frakkalandi.
Í lok september tilkynnti easyJet um nýja flugleið til Bristol og nú tveimur vikum síðar um flug til Basel. Þessar nýju flugleiðir koma til viðbótar þeim þremur sem fyrir voru. Því er ljóst að flugleiðum félagsins frá Íslandi hefur fjölgað mjög á skömmum tíma, en easyJet hóf fyrst að fljúga héðan í mars í fyrra og hefur á þeim tíma flutt 110 þúsund farþega til og frá landinu.
Hugh Aitken, framkvæmdastjóri easyJet í Bretlandi:
„easyJet hefur verið mjög sátt við viðtökurnar við flugi félagsins til og frá Íslandi. Með þessari nýju leið frá Reykjavík til Basel í Sviss tökum við skref í átt að því markmiði easyJet sem er að gera ferðalög Íslendinga til Evrópu þægileg og hagkvæm, hvort heldur sem er fyrir þá sem ferðast vegna viðskipta eða fyrir þá sem ferðast í frítíma sínum. Við höfum aukið jafnt og þétt við flugleiðirnar okkar frá Keflavík og flutt 110 þúsund farþega til og frá landinu á aðeins einu og hálfu ári. Við erum stolt af því að hafa átt þátt í því að styðja við íslenskan ferðamannaiðnað og kynna Ísland sem áfangastað fyrir hluta af þeim 60 milljónum farþega sem fljúga með easyJet ár hvert“.