Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Easy Jet jafnar metin
Miðvikudagur 2. október 2013 kl. 12:50

Easy Jet jafnar metin

Í vetur hefst áætlunarflug Easy Jet milli Bristol og Keflavíkur. Þar með flýgur félagið héðan til jafn margra flugvalla í Bretlandi og Icelandair gerir og ferðirnar verða 13 á viku. Líkt og hjá Wow Air.

Fyrir einu og hálfu ári síðan hóf breska lággjaldaflugfélagið Easy Jet að fljúga til Íslands þrisvar í viku frá Luton flugvelli í nágrenni Lundúna. Núna eru áfangastaðirnir þrír og þann 12. desember bætist sá fjórði við þegar áætlunarflug til Bristol, á suðvesturhluta Englands, hefst. Það er vefurinn Túristi.is sem greinir frá þessu.

Líkt og á hina þrjá staðina verður boðið upp á ferðir allan ársins hring. Með þessum auknu umsvifum þá fjölgar vikulegum ferðum breska félagsins úr ellefu í þrettán. Það eru jafn margar brottfarir og Wow Air býður upp á til Gatwick flugvallar við London. En höfuðborgin er eini áfangastaður íslenska félagsins á Bretlandseyjum.

Sjö ferðir á dag til Bretlands frá Keflavík
Icelandair hefur um langt árabil flogið tvisvar á dag til Heathrow í London og fyrir ári síðan bætti félagið Gatwick við leiðakerfi sitt. Ferðir félagsins til London verða nítján á viku í vetur. Auk þess flýgur Icelandair þrisvar í viku til Manchester og einnig til Glasgow í Skotlandi. Samtals munu Easy Jet, Icelandair og Wow Air bjóða upp á 51 ferð á viku til Bretlands í vetur sem jafngildir rúmlega sjö ferðum á dag.

Ætla að bæta við
Forsvarsmenn Easy Jet íhuga að fjölga flugleiðunum til Íslands enn frekar samkvæmt því sem kemur fram í tilkynningu. Félagið rekur tuttugu og tvær starfsstöðvar í Evrópu, þar af eru tíu utan Bretlands og brátt opnar sú ellefta í Hamborg í Þýskalandi. Í ljósi þess að nú geta farþegar Easy Jet flogið beint milli Íslands og fjögurra breskra flugvalla verður að teljast líklegt að næsta flugleið félagsins til Íslands verði frá meginlandinu. Easy Jet gerir til dæmis út frá fimm flugvöllum í Frakklandi og tveimur í Sviss.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024