Delta byrjar daglegt flug til Minneapolis
Delta Air Lines byrjar á morgun, föstudag, að fljúga á milli Íslands og Minneapolis og verður flogið daglega til loka september. Minneapolis bætist þar með við New York sem daglegur áfangastaður bandaríska flugfélagsins. Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að með flugi til Minneapolis sé verið að bregðast við gríðarlegum áhuga bandarískra ferðamanna á Íslandi og um leið fjölga valkostum fyrir íslenska ferðalanga vestur um haf. Alls verða 15 vikulegar flugferðir í boði með félaginu í sumar, þar af tvær á sunnudögum til New York.
Þegar Delta hóf starfsemi hér á landi árið 2011 fór flugfélagið fimm ferðir vikulega. Síðan þá hefur ferðatímabilið sífellt verið að lengjast og ferðum að fjölga. Í sumar verða um 5.900 sæti í boði í hverri viku. Delta tilkynnti jafnframt nýlega að í fyrsta sinn verður flogið allt árið til New York.
Ferðamönnum frá Bandaríkjunum hefur fjölgað á Íslandi undanfarin ár og er fjöldi þeirra nú fimmfaldur á við það hvað hann var árið 2010. Samkvæmt tölum frá Rannsóknarsetri verslunarinnar keyptu bandarískir ferðamenn vörur og þjónustu fyrir rúma 38 milljarða króna með greiðslukortum hér á landi í fyrra, til viðbótar við ferðatengda þjónustu sem þeir borguðu fyrir í heimalandinu. Að meðaltali eyðir hver bandarískur ferðamaður 160.000 krónum á ferðalagi sínu um Ísland. Til samanburðar eyðir hver ferðamaður frá Bretlandi 80.000 krónum.