Codland hefur framleiðslu á kollageni
Efnið gert úr íslensku þorskroði
Fyrirtækið Codland í Grindavík, hefur hafið framleiðslu á kollageni úr íslensku þorskroði í samstarfi fyrir fyrirtæki á Spáni. Ætlunin er að nota kollagenið í snyrtivörur og fæðubótarefni og segir Erla Ósk Pétursdóttir, framkvæmdastjóri Codlands, von er á fyrstu vörunum úr efninu eftir um það bil tvo mánuði. Frá þessu er greint á vefsíðu LÍÚ en Víkurfréttir fjölluðu um Codland í gær vegna tilnefningar til menntaverðlauna atvinnulífsins.
Erla segir Codland hafa fullvinnslu á sjávarafurðum að leiðarljósi - slík hugsun geti skapað mikil tækifæri við verðmætasköpun og nýtingu. Íslendingar eru nú þegar í forustustöðu þegar kemur að fullvinnslu á sjávarafurðum en með Codland á að gera enn betur og ekki síst að auka umræðu um möguleikana sem felast í rannsóknum, þróun og markaðsstarfi með sjávarfang.
„Við erum í samstarfi við snyrtivörufyrirtækið Ankra í Sjávarklasanum sem hefur verið að vinna að því að framleiða og selja snyrtivörur úr sjávarafurðum en við viljum leita tækifæra víðar,“ segir Erla. Hún segir að þessa dagana sé meðal annars verið að vinna að því að útbúa staðlaða vöru úr slógi, það er að segja svokallað slóglýsi, en niðurstöður rannsókna benda til þess að það geti til dæmis gagnast fólki með exem og önnur húðvandamál. „Efniseiginleikarnir eru hins vegar mismunandi eftir árstíma og æti í sjónum þannig að talsverð grunnvinna er eftir áður en hægt verður að halda áfram en ýmis tækifæri er hægt að skapa með frekari þróun,“ segir hún í viðtali sínu við LÍÚ.