Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

British Airways snýr aftur til Íslands
Þota BA á Keflavíkurflugvelli.
Fimmtudagur 7. maí 2015 kl. 15:08

British Airways snýr aftur til Íslands

Eitt stærsta flugfélag heims ætlar á ný að bjóða upp á áætlunarflug til Keflavíkurflugvallar og nú frá Heathrow í London. Túristi.is greinir frá þessu.

Breska flugfélagið British Airways mun bjóða upp á reglulegar ferðir til Íslands frá og með 25. október. Flogið verður alla miðvikudaga, föstudaga og sunnudaga og fara vélarnar í loftið frá Keflavík klukkan hálf fjögur seinni partinn og lenda við Heathrow flugvöll rétt um kvöldmatarleytið.
„Við erum glöð og stolt yfir því að geta boðið upp á flug frá Reykjavík til Heathrow flugvallar. Ég hlakka til að geta sýnt íslenskum farþegum okkar Terminal 5 bygginguna í Heathrow og bjóða þeim upp á tengiflug til Evrópu og út um allan heim," segir Peter Rasmussen, viðskiptastjóri British Airways í Norður-Evrópu, í samtali við Túrista.

Bjóða ódýrari miða

Lægstu fargjöld British Airways héðan til Heathrow og tilbaka kosta í dag um 17.200 krónur (86 pund) að því segir í tilkynningu frá félaginu. Samkvæmt athugun Túrista er þó algengara að miðinn báðar leiðir sé á um 31 þúsund krónur en hjá Icelandair kosta ódýrustu farmiðarnir, báðar leiðir til Heathrow, næsta vetur um 40 þúsund krónur. Við ódýrustu fargjöldin hjá British Airways bætist farangursgjald.

Með reynslu af Íslandi

Þetta verður ekki í fyrsta skipti sem British Airways flýgur til Íslands því félagið var til að mynda nokkuð umsvifamikið í Íslandsflugi á áttunda áratugnum og bauð einnig upp á reglulegar ferðir héðan til Gatwick flugvallar á árunum 2006 til 2008. Eins og áður segir mun félagið núna fljúga hingað frá Heathrow og geta farþegar í Íslandsfluginu náð tengiflugi þaðan beint til fjölmargra borga í Asíu, Afríku og S-Ameríku, til dæmis Hong Kong, Singapúr, Höfðaborgar, Buenos Aires, Sao Paulo, Mumbaí og Moskvu. Hingað til hefur Icelandair verið eitt um að fljúga héðan til Heathrow en lendingarleyfi á flugvellinum eru ófáanleg í dag og ganga á kaupum og sölu fyrir milljarða króna. Það má því segja að forsvarsmenn British Airways hafi mikla trú á fluginu hingað til lands með því bæta Íslandi við leiðakerfi félagsins frá þessum stærsta flugvelli Evrópu.

Að minnsta kosti 6 ferðir á dag til London

Með tilkomu British Airways verða í boði allt að fjörtíu og fjórar brottfarir í viku frá Keflavíkurflugvelli til flugvallanna við höfuðborg Bretlands. Hafa ferðirnir meira en tvöfaldast síðustu ár því veturinn 2012 voru í boði 19 ferðir í viku líkt og Túrista greindi frá. Auk British Airways býður Icelandair upp á flug til Heathrow, til Gatwick fljúga bæði íslensku félögin auk easyJet en breska félagið er einnig með reglulegar ferðir frá Luton flugvelli í námunda við London.

British Airways er eitt stærsta flugfélag Evrópu og umsvifamesta alþjóðlega flugfélagið í Bretlandi. British Airways er hluti af IAG samsteypunni sem rekur einnig spænsku flugfélögin Iberia og Vueling en það síðarnefnda flýgur hingað frá Barcelona og Róm fyrir sumartímann.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024