Breytir í metanbíla á Suðurnesjum - Sparnaður upp á hundruð þúsunda króna
Nýtt fyrirtæki á Suðurnesjum er byrjað að breyta bílum þannig að þeir gangi fyrir metani. Á allra næstu vikum verður opnuð fyrsta metanstöðin á Suðurnesjum og þá verður notkun metans í stað bensíns orðinn raunhæfur kostur fyrir Suðurnesjamenn. Með því að nota metan sem eldsneytisgjafa má ná fram sparnaði svo um munar. Á meðal fólksbíl sem ekið er 30.000 km. á ári getur sparnaðurinn verið nærri 400.000 kr. á ári og myndi þannig borga upp breytinguna á einu ári.
Það er Ingólfur B. Ingólfsson sem á og rekur Einn Grænn Suðurnes, sem er fyirtæki að Njarðarbraut 11b sem annast ísetningu á búnaði sem breytir bensínbílum í metanbíla. Búnaðinn er hægt að setja í flesta bensínbíla. Um er að ræða háþróað og notendavænt innsprautunarkerfi. Kerfið virkar þannig að bílvélarnar eru áfram ræstar á bensíni en þegar þær hafa náð ákveðnu hitastigi skipta þær sjálfkrafa yfir á metan-kerfið.
Ingólfur segir að með því að setja metan-kerfi í bíla megi lækka eldsneytiskostnað um allt að 50 prósent. Ísetningin er tiltölulega einföld að sögn Ingólfs en getur þó tekið 2-3 daga á hvern bíl. Sérsníða þarf búnaðinn fyrir hvern bíl því misjafnt er milli tegunda hvar hægt er að koma fyrir lögnum og búnaði. Veitt er 7 ára ábyrgð á tölvubúnaði.
Við ísetningu á metan-búnaði er tanki eða gashylki komið fyrir í farangursgeymslu bifreiðarinnar. Breytingar eru gerðar í vélarhúsi þar sem innsprautunarkerfi er komið fyrir. Þá er metangasmæli komið fyrir í mælaborði bifreiðarinnar.
Ingólfur ekur sjálfur um á Lexus IS 200 sem eyðir 12-13 lítrum m.v. 100 km akstur að vetri til. Með því að aka þessa 100 km á metani er eldsneytiskostnaðurinn um 1.100 krónur. Í dag kostar bensínlítrinn um 207 krónur í sjálfsafgreiðslu. Mælieiningar eru aðrar í metani en segja má að samsvarandi lítri af metani kosti 107 krónur.
En hvað kostar svo að breyta bíl þannig að hann gangi fyrir metani? Hefðbundin 4 cyl. bíl-breyting kostar 390 þúsund krónur m/vsk. í breytingu og innifalinn er meðalstór gaskútur. 6 cyl. breyting kostar 455 þúsund krónur m/vsk og 8 cyl. 495 þúsund krónur m/vsk. Landsbankinn býður upp á hagstæð lán til breytinganna sem greidd eru upp á allt að 4 árum.
Þeir sem vilja kynna sér metan-breytinguna nánar geta haft samband við Ingólf í síma 865 9537 eða sent póst á [email protected] og fengið nánari upplýsingar.
Þá má benda á reiknivél á www.g1.is/reiknivél þar sem þú getur reiknað út dæmi fyrir þinn bíl með og án metan-vélar.