Breytingar á Aðalstöðinni
Glöggir vegfarendur hafa eflaust tekið eftir miklum stakkaskiptum á Aðalstöðinni við Hafnargötu undanfarnar vikur.
Gagngerar breytingar hafa orðið á rekstri og aðstöðu innan dyra og utan, en Ingi Þór Hermannsson, deildarstjóri markaðsdeildar Esso segir breytingarnar hafa staðið lengi til. „Við vissum að við þurftum að breyta til þegar við tókum yfir reksturinn fyrir tæpum þremur árum. Við erum að tala um afar rótgróna starfsemi í Keflavík, en við viljum gera betur og byggja upp.” Það er ekki orðum aukið þar sem rekstur Aðalstöðvarinnar nær aftur til ársins 1948 og hefur verið í sama húsnæði í rétta hálfa öld.
Hin nýja Aðalstöð ber yfirskriftina Veganesti - Aðalstöðin, en Esso rekur tvö önnur Veganesti, í Reykjavík og á Akureyri. Auk nafnabreytingarinnar hefur einnig orðið bylting í því sem er á boðstólum í Veganesti - Aðalstöðinni því nú er boðið upp á skyndibita eins og hamborgara, heitar samlokur og fleira sem er eldað á staðnum. Þá hefur aðkoman að lúgunum verið bætt til mikilla muna.
Ingi segir viðtökurnar hafa verið góðar. „Það var náttúrulega mikið rask í sumar þegar framkvæmdirnar voru, en við sjáum að okkar föstu viðskiptavinir eru komnir aftur og þeir hafa lýst ánægju sinni með breytingarnar við starfsfólk okkar. Við lögðum metnað okkar í þetta verkefni og finnst vel hafa tekist til.”
VF-mynd/ Þorsteinn Kristinsson