Bílaþjónusta og bensínstöðvar við Flugvelli
Bílaþjónusta og bensínstöðvar verða áberandi við Flugvelli, nýja götu í Reykjanesbæ ofan Iðavalla. Umhverfis- og skipulagsráð Reykjanesbæjar hefur úthlutað fjölda lóða við götuna.
Stærsta lóðaumsóknin var upp á átta samliggjandi lóðir. Höldur ehf., sóttu um lóðirnar að Flugvöllum 5,7,9,11,13,15,17,19. Þar hyggst fyrirtækið setja upp umfangsmikla bílaþjónustu með smurstöð, dekkjaverkstæði, viðgerðarþjónustu og bensínstöð. Umsókn fyrirtækisins hefur verið samþykkt. Samkvæmt heimildum Víkurfrétta er krafa frá Reykjanesbæ um hátt hlutfall byggingamagns. Lóðirnar séu ekki hugsaðar sem bílavellir til að geyma magn bílaleigubíla til lengri tíma.
Blue Eignir ehf., sóttu um lóðirnar Flugvellir 21, 23 og 25. Umsókn þeirra hefur verið samþykkt.
Þremur lóðum hefur jafnframt verið úthlutað til N1 hf. Um er að ræða lóðirnar númer 1, 3 og 27. N1 hf. hefur hugmyndir um byggingu bensínstöðvar og bílaþjónustu. Þá hefur Brimborg fengið úthlutað lóðinni Flugvellir 2 og HUG-verktakar fengu lóðina Flugvellir 20.
Fyrsta lóðin sem úthlutað var við Flugvelli var hins vegar til Brunavarna Suðurnesja sem mun reisa nýja slökkvistöð á horni Flugvalla og Aðalgötu.