Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Bílasala ört vaxandi - segir Ævar Ingólfsson hjá Toyota
Mánudagur 12. september 2011 kl. 14:07

Bílasala ört vaxandi - segir Ævar Ingólfsson hjá Toyota

„Það er bara búið að ganga mjög vel. Árið 2010 var í raun kreppuárið því þá voru að seljast 750 bílar í heildina eða 62-63 bílar á mánuði, sem er með því minnsta ég hef upplifað síðan ég byrjaði í þessu fyrir 25 árum síðan,“ segir Ævar Ingólfsson framkvæmarstjóri Toyota í Reykjanesbæ. Ævar segir aukninguna í bílasölu á þessu ári hafa verið gríðarlega. „Við erum að meðaltali að selja 90-95 bíla á mánuði, sem er mjög gott. Það er búið að vera nóg að gera hjá okkur þrátt fyrir að fólk telji oft að ekkert sé að gerast í bílasölu.“

Aðal samdrátturinn er að sögn Ævars í nýjum bílum en nú seljast á bilinu 40-50 nýjir bílar á ári í samanburði við 400-500 á ári á árunum 2005-2007 sem þó hafi verið einstaklega blómleg. Mesta salan er núna í notuðum bílum og Ævar segir fólk í auknum mæli kaupa sér minni og sparneytnari bíla. „Að mestu leiti er fólk að staðgreiða bílana og þeir sem taka lán taka á bilinu 30-40% lán en þú færð ekkert meira en 70% lán af andvirði bílsins í dag, þetta er fólk orðið meðvitað um. Mikið er líka um að fólk setji bílana sína uppí og borgar svo mismuninn.“ Ævar segir að fólk sé farið að hugsa miklu meira út í hvað bílinn eyðir og algengt að fólk skipti út eyðslufrekum bílum. „Fólk er mikið að spá og spekúlera hvernig það geti sparað eldsneytið.“

Þegar Ævar er spurður af hverju hann telji að líf sé að færast aftur í bílasölu þá hefur hann ákveðnar skýringar á því. „Fólk var að bíða eftir leiðréttingu á erlendum lánum og fólk var bundið í fjötrum fram að því að þau voru felld niður, langflestir voru jú með erlend bílalán. Árið 2010 voru þeir sem voru með erlend bílalán einfaldlega frosnir. Svo eru íslensk lán í dag ekki með svo háa vexti miðað við hvernig þetta var á góðæristímanum þegar Seðlabankinn reyndi að sporna við þenslunni með hærri vöxtum. Það varð bara til þess að fólk fór frekar í erlendu lánin þar sem vaxtarmunurinn var svo gífurlega mikill. Í dag eru vextir á íslenskum lánum með lægsta móti og ekki verið jafn lágir í langan tíma. Margir eru líka að taka óverðtryggð lán nú til dags.“

Bílaflotinn gamall á Íslandi

Ævar segir bílaflotann á Íslandi vera að eldast gífurlega hratt og sala á nýjum bílum þurfi að fara að komast í gang. „Ég sé hins vegar ekki fyrir mér að sala á nýjum bílum muni glæðast fyrr en að lánin verði eftirsóttari og verðryggingin falli niður. Jafnvel verða stjórnvöld að hjálpa til með lægri gjöldum og öðru slíku. Ég sé svo fyrir mér að það verði töluverð aukning á Hybrid bílunum sem eru töluvert ódýrari í innflutningi vegna þess hve lítið þeir menga og sú þróun er að eiga sér stað að sífellt fleiri slíkir bílar eru framleiddir. Það þýðir vonandi það að bílar lækka í verði. Þó tel ég að það verði ekkert stökk í sölu á nýjum bílum á næstunni, heldur mun þetta vaxa hægt og bítandi og komast fljótlega í eðlilegt horf,  ég er bara nokkuð bjartsýnn hvað varðar framtíðina,“ sagði Ævar að lokum í samtali við Víkurfréttir.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024