Bílar og Hjól með alhliða bílaþjónustu
Hjá Bílar og Hjól við Njarðarbraut starfa sex manns sem allir eru fagmenntaðir á sínu sviði. Garðar Haukur Gunnarsson er framkvæmdastjóri hjá fyrirtækinu sem er alhliða bifreiðaverkstæði sem að sögn Garðars getur séð um flestar, ef ekki allar tegundir bíla. Nýlega tók fyrirtækið að þjónusta Benz og KIA bíla. „Það hefur orðið alveg gríðarleg söluaukning á KIA bílum síðan Kjartan tók við umboðinu,“ segir Garðar og ástæðuna segir hann vera hvað Kjartan sé góður sölumaður og að gæði vörunnar séu einfaldlega mikil. „KIA er að bjóða upp á 7 ára ábyrgð, sem er algert einsdæmi.“
Bílar og Hjól er smurstöð fyrir allar tegundir bíla en þeir eru einnig með bremsuviðgerðir og dekkjaverkstæði. „Við höfum verið starfandi frá árinu 2003 sem bílasprautunar- og réttingaverkstæði, síðar urðum við hjólbarðaverkstæði og núna í sumar urðum við sem sagt almennt bílaverkstæði og smurstöð. Við höfum staðið saman í gegnum þykkt og þunnt, kreppur og annað,“ segir Garðar.
Hann viðurkennir þó að þetta sé ekki versti bransinn til að vera í þegar að það herðir að. „Fólk er kannski síður að kaupa nýja bíla og það þarf að hugsa um þessa gömlu. Fólk er frekar að halda bílunum sínum við og lætur þá endast. Ef það kemur eitthvert vandamál upp hérna þá reynum við að leysa úr því á staðnum, við erum ekkert að senda kúnnana okkar til Reykjavíkur, sem mér finnst mjög jákvætt.“
Garðar segir að fólk sé byrjað að mæta og setja vetrardekkin undir, þó eru nagladekkin í minna mæli en oft áður. „Þeim fer fækkandi, harðkornadekkin og loftbóludekkin eru að ryðja sér til rúms og svo líka heilsársdekkin. Ég fullyrði það að þessi dekk eru bara orðin það góð að þau slá alveg við þessum gömlu nagladekkjum, þetta eru orðin svo tæknilega þróuð dekk að þau svínvirka í hálku og bleytu. Hérna á Suðurlandsundirlendinu þá myndi ég segja að menn hafi ekki mikið við nagladekkin að gera. Við mælum því með naglalausum dekkjum. Þegar að það er ekki hálka þá geta naglar virkað illa og oft gefið verra grip ef eitthvað er. Bíll sem er á góðum míkróskornum dekkjum með gott bremsukerfi er ekkert síður öruggur en bíll sem er á nagladekkjum. Það er stundum falskt öryggi í þessum nöglum og svo eiga þeir það til að týnast.“