Bílabærinn að vakna
-mikil aðsókn á Benz sýningu hjá K.Steinarssyni
„Þetta er búið að vera stór dagur, einn sá stærsti lengi. Bílabærinn er að taka við sér,“ sagði Kjartan Steinarsson, bílasali í K.Steinarssyni eftir bílasýningu sl. laugardag.
Sýndar voru nokkrar nýjar gerðir af þýska eðalbílnum Mercedes Benz, fólksbílum, jeppum og vinnubílum. Þegar fréttamaður VF kíkti við voru nokkrir iðnaðarmenn að skoða af gaumgæfni MB Citan vinnubíl sem er í boði á mjög hagstæðu verði. Aðrir prófuðu og skoðuðu glæsivagna frá Benz, nýjan ML jeppa, B-Class og E-Class metan og GLK. Síðast en ekki síst nýjan A-Class en hann var kjörinn bíll ársins á Íslandi. Kjartan fór í bæjarrúnt með Víkurfréttir á A-Class og ML jeppa og það er hægt að taka undir það sem stóð í auglýsingunni fyrir sýninguna að Mercedes bílar eru meistarastykki. Hagstætt verð kemur á óvart því í hugum flestra í gegnum tíðina hafa þýskir bílar verið dýrir. Nú spila mengunarminni vélar inn í þann þátt og ör þróun í þeirri deild hefur (skatta)lækkað verð á bílum hér á landi og það eftir kreppu, hversu ótrúlegt sem það má vera.
„Þetta er allt á réttri leið hér á Suðurnesjum. Við verðum bara að vera bjartsýn. Þetta hlýtur að fara að koma. Við finnum alla vega fyrir því í bílasölunni. Það er kominn tími á skipti hjá mörgum og útlitið framundan er því gott,“ sagði Kjartan.
Citan vinnuþjarkurinn vakti athygli iðnaðarmanna á sýningunni.