Annar aðaleigandi Ægis sjávarfangs í Grindavík hagnaðist um 80 milljarða á síðasta ári
Thai Union sem á síðasta ári keypti helmings hlut í niðursuðufyrirtækinu Ægi sjávarfangi í Grindavík, hagnaðist um jafnvirði liðlega 80 milljarða íslenskra króna á síðasta ári. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu sem Thai Union Group.
Thai Union sem sérhæfir sig í niðursuðu sjávarfangs er eitt af stærstu sjávarafurðafyrirtækjum heims. Meðal fyrirtækja innan Thai Union fyrirtækjasamstæðunnar eru þekktir framleiðendur eins og King Oscar, Chicken of the Sea, John West, Petit Navire, Parmentier ,Mareblu. Thai Union er með 47 þúsund starfsmenn víða um heim og er meðal annars stærsti framleiðandi niðursoðins túnfisks en fimmta hver dós af niðursoðnum túnfiski sem seld er í heiminum er frá Thai Union.
Í tilkynningu fyrirtækisins kemur meðal annars fram að brúttóhagnaður Thai Union Group nam á síðasta ári 20.1 milljarði thailensku myntarinnar Bath, en skv. upplýsingum Seðlabankans er gengi Bath nú 4,07 íslenskar krónur. EBITDA fyrirtækisins í árslok nam jafnvirði 48,8 milljarða íslenskra króna og hefur hækkað um 9,2 prósent á einu ári.
Leiðandi á sviði sjálfbærni og fjárfestinga í nýsköpun
„Thai Union heldur áfram að leggja áherslu á arðsemi þvert á kjarnastarfsemi, ný virðisaukandi fyrirtæki og strategískar fjárfestingar,“ segir Thiraphong Chansiri, forstjóri Thai Union Group. „Þessar niðurstöður sýna að við getum verið stolt af þeim árangri sem við höfum náð síðustu 10 árin. Við göngum nú inn í nýjan áratug og ég er þess fullviss að við munum halda áfram að vera leiðandi á sviði sjálfbærni og fjárfestinga í nýsköpun. Við erum einnig að þróa vörur til að mæta þörfum viðskiptavina okkar og neytenda um allan heim, með áherslu á heilsusamlegu líferni og heilbrigðari höf.“
Annað árið í röð var Thai Union efst á lista yfir matvælaframleiðendur á Sjálfbærnivísitölu Dow Jones (DJSI), auk þess að vera efst á lista hjá Seafood Stewardship vísitölunni (SSI) sem metur framlag 30 stærstu sjávarútvegsfyrirtækjanna til að ná Heimsmarkmiðum SÞ um sjálfbæra þróun.
Mikilvægt fyrir íslenskan niðursuðuiðnað
„Það hefur mikla þýðingu fyrir íslenskan niðursuðuiðnað í heild að tengjast þessu öfluga fyrirtæki. Samstarf við Thai Union veitir vörum okkar ákveðið söluöryggi og aðgang að sterku sölu- og dreifikeri sem opnar möguleika á markaðssetningu út úm allan heim á þeim niðursuðuvörum sem er hugsanlega hægt að framleiða hér á landi,“ segir Guðmundur P. Davíðsson stjórnarformaður Ægis sjávarfangs.
Fram hefur komið að Ægir sjávarfang hefur þrátt fyrir tengsl við Thai Union haldið áfram að framleiða niðursoðna þorskalifur undir eigin merkjum og einkafyrirtækjamerkjum annarra eins og til dæmis verslanakeðja. Vörumerki Ægis sjávarfangs eru iCan og Westfjords.