Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Alur tekur formlega til starfa í Helguvík
Miðvikudagur 3. desember 2003 kl. 18:25

Alur tekur formlega til starfa í Helguvík

Alur, álvinnsla hf. var formlega opnuð í dag í Helguvík að viðstöddu fjölmenni. Í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu kemur fram að í verksmiðjunni sé ál endurunnið úr álgjalli og álríkum efnum er falla til hjá álverum Alcan í Straumsvík og Norðuráls á Grundartanga, en þessi efni voru áður flutt til endurvinnslu í Evrópu.
 
Verksmiðjan er búin nýjum vistvænum tæknibúnaði sem settur var upp í húsnæði Síldarvinnslunnar í Helguvík og starfsmenn Síldarvinnslunnar sjá um daglegan rekstur. Í upphafi er gert ráð fyrir að unnið verði úr um 6 þúsund tonnum af álgjalli og brotaáli á ári og að álframleiðsla verksmiðjunnar nemi um 3 þúsund tonnum af áli á ári. Í upphafi er einungis hluti af afkastagetu verksmiðjunnar nýttur og þarf 5 starfsmenn til vinnslunnar. Með stækkun álveranna eykst magn hráefna. Þá verður verksmiðjan keyrð á vöktum allan sólarhringinn og mun þá þurfa allt að 15 manna starfslið.

Upphafsmenn Als eru Helgi Þór Ingason og Þorsteinn I. Sigfússon og hópur tengdur þeim ásamt Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins. Tæknin er þróuð af AGA, Hertwich Engineering í Austurríki og álframleiðandanum Corus og er hún af sama tagi og notuð hefur verið undanfarin sjö ár í verksmiðju Corus í bænum Voerde í Þýskalandi. Að uppsetningu verksmiðjunnar komu Hertwich sem framleiddi og stjórnaði uppsetningu á vélbúnaði, Síldarvinnslan hf sem setti búnaðinn upp og Iðntækni ehf sem annaðist hönnun og framkvæmdaeftirlit fyrir Al.

VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Helgi Þór Ingason stjórnarformaður fyrirtækisins kynnir starfsemina fyrir gestum í Helguvík í dag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024