Allir fá hollan skólamat
Fjölskyldufyrirtækið Skólamatur framleiðir nærri 15 þúsund máltíðir alla virka daga og starfsmenn eru 110. Stofnandinn Axel Jónsson er ánægður að hafa fengið börn sín í stjórnun fyrirtækisins
Skólamatur ehf. er fjölskyldufyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu á ferskum og hollum mat fyrir börn í leik- og grunnskólum. Framleiðsla á skólamat hófst fyrir tuttugu árum síðan hjá Axel Jónssyni, veitingamanni sem þá hafði rekið fjölbreytta veitingaþjónustu í rúman áratug á Suðurnesjum. Nokkrum árum síðar þegar starfsemin hafði aukist verulega var nafni fyrirtækisins breytt í Skólamat er það er í eigu hjónanna Þórunnar Maríu Halldórsdóttur og Axels Jónssonar, matreiðslumeistara, sem hefur áratuga reynslu af alhliða veitingarekstri. Skólamatur rekur yfir fjörutíu eldhús á suðvesturhorni landsins og eru starfsmenn fyrirtækisins eitt hundrað og tuttugu. Víkurfréttir fengu morgunfund með kraftmiklum eiganda fyrirtækisins, Axel Jónssyni, og börnum hans sem bæði starfa hjá Skólamat, þeim Jóni Axelssyni, framkvæmdastjóra, og Fanný Axelsdóttur, mannauðsstjóra fyrirtækisins, sem eru ekki síður full af orku.
Hugmyndin vegna einsetningar skóla
Áhugi Axels fór að beinast að heitum skólamáltíðum eftir setu sína í skólanefnd Keflavíkurbæjar árið 1990. Út frá reynslu sinni þróaði hann viðskiptahugmynd sem varð að veruleika árið 1999 þegar hann hóf að bjóða börnum leik- og grunnskólum upp á hollar máltíðir, sérstaklega ætlaðar orkumiklum krökkum sem hafa þörf fyrir næringarríkan mat í erli dagsins. Við forvitnuðumst um forsögu þessa fyrirtækis og gefum Axel orðið:
„Á þessum tíma þegar lög um einsetningu skóla voru sett þá var ég í bæjarpólitíkinni og var einnig mjög virkur sjálfur sem matreiðslumaður. Þá voru veislur haldnar á ýmsum stöðum, ég var alls staðar að elda fyrir fólk. Ég poppaði kannski upp í hrauninu og fór að elda fyrir þjóðhöfðingja og aðra mæta gesti. Ég var einnig pantaður til útlanda og sá um veislur erlendis. Það var nóg að gera. Ég er matreiðslumaður að mennt og þjónusta er mér í blóð borin. Þegar lög um einsetningu skóla komust í framkvæmd þá vissi ég að það þyrfti að gefa börnunum, nemendunum, mat í hádeginu. Ég minntist á þetta við Ellert Eiríksson, sem þá var bæjarstjóri, að mér fyndist ég betur eiga heima í matreiðslu en pólítík og hætti. Árið 1999 stóð ég á krossgötum og byrjaði að gera skólamat fyrir skóla í Hafnarfirði en markmiðið var að framleiða hollan og næringarríkan mat fyrir nemendur skólanna,“ segir Axel og það leynir sér ekki að krafturinn, sem alltaf hefur einkennt þennan mæta mann, er þarna ennþá. Axel hefur komið víða við á starfsferli sínum og er kannski einna þekktastur fyrir veitingahúsið Glóðina sem hann rak á sínum tíma í miðbæ Keflavíkur.
Vildi vinna hjá sjálfum sér
„Árið 1999 var ég blankur og hafði um tvennt að velja, að elda á annarra manna veitingahúsum eða að bretta upp ermar og vinna hjá sjálfum mér. Ég valdi seinni kostinn og ákvað að fara til Óla og Áslaugar, vina minna á Ísafirði, því ég þurfti næði til að koma skólamatarhugmyndinni í tölvu, því nú var allt orðið tölvuvætt. Ég hafði áður hringt í Nonna son minn og beðið hann að kenna mér að setja upp Excel því ég ætlaði að hafa fjármálin á hreinu í þessari nýju viðskiptahugmynd minni um skólamáltíðir. Á þessari viku bjó ég til rekstraráætlun sem bankar voru ekkert of móttækilegir fyrir þegar ég sýndi þeim hugmynd mína. Ég fór samt af stað ásamt Guðjóni V. Reynissyni, matreiðslumanni, en við vorum tveir sem gerðum allt sjálfir í upphafi. Við elduðum matinn á morgnana eldsnemma á Iðavöllum 5 og svo vöskuðum við tveir upp en þetta var árið 1999. Það var fyrst sótt í matseld okkar frá leikskólum í Hafnarfirði og á höfuðborgarsvæðinu en svo árið 2007 er nafninu breytt í Skólamatur. Í dag erum við að þjónusta og elda mat í nær öllum skólum Reykjanesbæjar. Í vor gerði Hafnarfjarðarbær áframhaldandi samning við Skólamat um framreiðslu á mat fyrir leik- og grunnskóla Hafnarfjarðar árin 2019–2023 en Skólamatur hefur sinnt þessari þjónustu frá 1999 með hléum,“ segir Axel sem er að vonum ánægður með hversu vel gengur að reka fyrirtækið.
Gaman að gefa börnum að borða
„Ég er afi sem hef gaman af því að gefa börnum að borða. Ég vildi kynna börnum venjulegan heimilismat, til dæmis slátur, lifrarpylsu og grjónagraut. Svo hafa auðvitað næringarfræðingar starfað með okkur síðan en svona hugsaði ég í upphafi. Verkefnið í kringum Skólamat var mér mjög hugleikið þó að í upphafi hafi bankarnir ekki haft trú á því sem ég vildi gera. Ég þurfti að ávinna mér traust. Ég hef alltaf verið góður matreiðslumaður en lélegri viðskiptamaður, aðrir eru betri í því en ég. Á þessum tíma hélt ég áfram með hugmyndina og gafst ekki upp en ég var búinn að reikna út að ég þyrfti 3.200 matarskammta til að dæmið gengi upp. Bankinn vildi hafa mjög mikið eftirlit með rekstrinum hjá mér, fyrst gaf ég þeim skýrslu daglega, svo vikulega og þá mánaðarlega. Smátt og smátt fóru þeir að sjá að Skólamatur væri vel heppnuð hugmynd í framkvæmd,“ segir Axel.
Fjölskyldan samhent
Börn Axels og eiginkonu hans, Þórunnar Halldórsdóttur, Jón og Fanný, starfa bæði hjá fyrirtækinu í dag. Hvernig kom það til?
„Árið 2006 byrjaði ég hjá pabba. Ég var ófrísk og var farið að langa að flytja hingað suður. Ég var nýbúin að læra viðskiptafræði og pabbi bauð mér að starfa hjá fyrirtækinu. Stærsta hlutverk mitt hefur snúist í kringum starfsfólkið okkar og svo erum við systkinin góð að vinna saman en pabbi hefur dregið sig að mestu í hlé,“ segir Fanný.
„Já, við getum sagt að ég sjái um allt þetta ferkantaða, það er að segja fjármálin hjá Skólamat en Fanný sér um mjúku málin, mannauðs- og samskiptamál. Það getur stundum verið snúið að vinna hjá pabba sínum. Við erum stórt fyrirtæki í dag og höldum stjórnarfundi. Þar fáum við góðan mann til liðs við okkur, Gylfa Árnason verkfræðing. Þegar fjölskyldan er að reka fyrirtæki saman, þá þurfum við einhvern utanaðkomandi í hópinn sem lítur hlutlaust á málin varðandi rekstur og framtíðarhugmyndir,“ segir Jón Axelsson, oftast kallaður Nonni.
Pabbi stundum oddamaður
„Þegar við Nonni ræðum málin og erum sammála þá ráðum við en þegar við systkinin erum ósammála þá ræður pabbi,“ segir Fanný brosandi og bætir við:
„Við erum náin fjölskylda og hittumst oft. Við erum bara tvö systkin en jafnframt bestu vinir. Við erum að auki að reka saman stórt fyrirtæki sem getur orðið svo persónulegt. Það er auðvelt að fara að ræða vinnuna þegar fjölskyldan hittist en við reynum að passa okkur því hinir vilja nú kannski tala um eitthvað annað en fyrirtækið.“
„Við brennum öll fyrir verkefninu, þessu fyrirtæki. Það er gríðarleg ástríða hjá okkur í þessum rekstri. Við viljum að maturinn frá Skólamat sé vinsæll á meðal barna og þeirra sem borða hjá okkur. Við gerum miklar kröfur á gæði og innihald matarins. Við eldum frá grunni allar máltíðir og viljum útrýma óheppilegum innihaldsefnum, hafa fæðuna eins hreina og unnt er. Við gerum kröfur til birgja okkar einnig, gæðin verða að vera fyrsta flokks. Við erum að þjónusta heimili sem hafa ólíkar skoðanir á mat og þess vegna verðum við að hafa matseðilinn fjölbreyttan. Við þurfum að taka tillit til einstaklinga með ofnæmi, óþol, trúarbragða, lífsstíls og fleira og notum sérstakt eldhús þar sem taka þarf tillit til sex hundruð einstaklinga sem þurfa aðra matseld. Þeir sem geta borðað allan mat eru samt miklu fleiri. Við erum með tíu til tólf þúsund matarskammta dag hvern á Suðurnesjum og Stór-Reykjavíkursvæðinu, alla leið upp í Mosfellsbæ. Það eru mjög margir þættir sem taka þarf tillit til, smekkur og fleira. Við bjóðum einnig vegan-rétti. Reglan hjá Skólamat er að bjóða upp á tvíréttaðan matseðil á hverjum degi. Börn vilja ekki eingöngu borða hakk og spagettí eða pitsu alla daga,“ segir Jón.
„Já, við viljum hlusta eftir rödd barnanna en við erum einnig með næringarfræðing á snærum okkar. Við erum alla daga með meðlætisbar, þar sem börn geta valið sér ferskt grænmeti og ávexti á disk. Börn vilja einfaldan mat og oftar en ekki vilja þau hafa sósuna til hliðar. Það gerum við því við viljum fá þau til að borða. Þau eru hrifin af kjötsúpu og soðnum fiski en einnig kjúklingasúpu og lasagna. Það er fjölbreytnin sem gildir. Eftir að við fórum að setja inn meðlætisbarina þá hefur neysla þess þrefaldast. Börn vilja alveg vera holl en það erum við fullorðna fólkið sem þurfum að halda hollustunni að þeim. Þau læra af okkur,“ segir Fanný.
Hollusta hefur áhrif á lærdóm
Axel segir að rannsóknir sýni að börn eigi auðveldara með að læra ef þau borða staðgóðan morgunmat og hádegismat.
„Auðvitað þurfa allar máltíðir dagsins að innihalda ákveðna hollustu. Við erum búin að fara til útlanda og skoða önnur skólamötuneyti en þar höfum við séð að Skólamatur stendur sig einkar vel samanborið við önnur lönd. Við erum með ferskan mat og aðhald í öllu. Við höfum fjárfest í góðu fólki og tækjum til að efla fyrirtækið. Eldhúsið okkar er mjög öflugt. Þjálfun starfsfólks er mikilvæg og nú erum við með um 120 manns í vinnu. Ég er sjálfur þannig gerður að ég vil gera betur í dag en í gær. Hugmyndir að nýjum fyrirtækjum skjóta reglulega upp kollinum hjá mér en þannig er ég bara, hugmyndirnar hætta ekkert að koma þótt ég sé nánast búinn að draga mig í hlé frá fyrirtækinu og sinni mest afahlutverki mínu,“ segir stofnandinn og brosir.
„Já, pabbi er svo hugmyndaríkur að hann gæti stofnað nýtt fyrirtæki á þriggja mánaða fresti. Hann ber virðingu fyrir fólki og vill hlusta eins og við viljum einnig gera. Við erum með frábært starfsfólk sem á stóran þátt í hve vel gengur með Skólamat,“ segir Jón.
Lottóvinningur
Fanný segir mikilvægt að hlusta á starfsfólkið og fyrirtækið vilji gera vel við það. „Við erum reglulega með viðburði og námskeið fyrir starfsfólkið. Það er árshátíð einu sinni á ári og þannig viljum við þakka fyrir vel unnin störf. Það er mjög lítil starfsmannavelta hjá okkur, fólk er með langan starfsaldur hjá Skólamat. Þetta skiptir allt máli þegar verið er að reka gott fyrirtæki, stöðugleiki.“
„Það er fullmannað hjá okkur með 120 starfsmönnum. Það eru sjötíu manns sem starfa á okkar vegum í skólunum sjálfum en við erum að reka fjörutíu eldhús á ýmsum stöðum þar sem við berum fram matinn okkar. Við erum með miðlægt eldhús. Ef um er að ræða fisk í hádegismat þá fer hann ferskur frá okkur en lokaeldun fer fram í skólunum. Hér er allt undirbúið og svo hraðkælt með góðum árangri en þetta kallast cook&chill á ensku. Við hugsum um eina máltíð í einu en það eru 11.300 hádegismáltíðir og 3.200 síðdegsimáltíðir sem við undirbúum. Svo erum við einnig með morgunmat sums staðar. Skipurit fyrirtækisins er agað og reksturinn gengur vel,“ segir Jón Axelsson og Axel Jónsson bætir við hvað hann sé ánægður með reksturinn í höndum barna sinna, sem við látum vera lokaorðin:
„Það var lottóvinningur að fá þau í þetta með mér. Ég er mjög ánægður.“
Séð yfir húsnæði Skólamatar.
Axel kemur oft snemma og fylgist með þegar bílar fyrirtækisins fara með matinn snemma á morgnana.
Axel í Skólamat fyrir nokkrum árum.
Axel og börnin hans og stjórnendur Skólamatar, Fanný og Jón.
Soðinn fiskur er vinsæll hjá ungu kynslóðinni.
Fjör í eldhúsinu.
Krakkarnir eru ánægðir með skólamatinn.
Forsetahjónin komu í heimsókn fyrr á þessu ári.
Axel í Gerðaskóla og hressum krökkum fyrir nokkrum árum.
Guðni forseti og Kjartan bæjarstjóri í heimsókn fyrr á árinu.
Axel opnaði veitingastaðinn Glóðina árið 1983 sem stuttu síðar fékk vínveitingaleyfi, fyrstu veitingastaða á Suðurnesjum.
Það eru stórvirkir pottar og pönnur sem þarf til að framleiða yfir 12 þúsund skólamáltíðir á hverjum degi.