Aldrei fleiri farþegar með WOW air
„Við áætlum að um 3,7 milljónir farþega muni ferðast með okkur árið 2018,“ segir Skúli Mogensen, forstjóri WOW air, en í fyrra flutti flugfélagið rúmlega 2,8 milljónir farþega sem er 69% fjölgun farþega frá árinu áður.
Flugfloti WOW air verður 24 þotur í lok árs en félagið mun taka á móti sjö glænýjum þotum á árinu, þar af þremur innan örfárra mánaða.
„Árið 2017 hjá WOW air einkenndist af gríðarlegum vexti og fjárfestingum á öllum sviðum. Ég vil nota tækifærið og þakka okkar frábæra starfsfólki fyrir að standast það mikla álag sem fylgir því að vaxa 69% á milli ára. Ég er mjög spenntur fyrir þeim nýjungum sem við erum að kynna á árinu; bæði nýjum áfangastöðum og ekki síst þjónustu til að gera WOW ferðalagið enn ánægjulegra fyrir okkar gesti,“ segir Skúli.
Á árinu mun WOW air bæta við sig áætlunarflugi til Detroit, Cleveland, Cincinnati, St.Louis og Dallas. Félagið mun þá fljúga til 15 áfangastaða í Norður-Ameríku.