Aldrei fleiri farþegar í desember
Icelandair flutti um 120 þúsund farþega í millilandaflugi í desember og voru þeir 20% fleiri en í desember á síðasta ári. Árið 2012 flutti félagið í heild rúmar 2 milljónir farþega sem er metfjöldi farþega frá upphafi. Aukning farþega frá fyrra ári var 16%. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Icelandair.
Framboðsaukning var 27% í desember en sætanýting nam 72,7% samanborið við 74,3% í desember 2011.
Farþegar í innanlands- og Grænlandsflugi voru rúmlega 22 þúsund í desember sem er lækkun um 9% á milli ára. Sætanýting nam 66,5% og jókst um 3,6 prósentustig á milli ára.
Seldum blokktímum í leiguflugi fækkaði um 17% m.v. desember á síðasta ári. Fraktvélar í leiguflugsverkefnum voru einni færri en í fyrra ásamt því að nýting leiguvéla minnkaði vegna viðhalds. Fraktflutningar drógust saman um 2% á milli ára.
Framboð á gistinóttum hjá hótelum félagsins jókst um 28% frá desember á síðasta ári. Herbergjanýting var 46,1% og var 2,5 prósentustigum hærri en í desember 2011.