Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

  • Airport Associates stækkar um 75-80% á þessu ári
  • Airport Associates stækkar um 75-80% á þessu ári
Miðvikudagur 1. júní 2016 kl. 06:00

Airport Associates stækkar um 75-80% á þessu ári

- Starfsmenn verða 520 í sumar - Ráða 120 starfsmenn frá Póllandi

Vöxturinn á Keflavíkurflugvelli hefur ekki farið framhjá neinum. Eitt þeirra fyrirtækja sem hafa vaxið hægt og hljótt í þjónustu við flugið en þó nokkuð hratt síðustu misseri er fyrirtækið Airport Associates. Það er með margþætta þjónustu á Keflavíkurflugvelli og þjónustar marga tugi flugfélaga, höndlar með þúsundir tonna í vöruflutningum og innritar um 900.000 farþega í flug á þessu ári. Starfsmannafjöldi Airport Associates fer í um 520 á þessu ári en sá fjöldi er ígildi álvers í fjölda starfsmanna. Starfsemin hefur vaxið hratt og eigendur fyrirtækisins hafa ákveðið að nota hagnaðinn af starfseminni í frekari uppbyggingu og þá þykir Airport Associates líka góður vinnuveitandi. Sigþór Kristinn Skúlason er einn eigenda fyrirtækisins og framkvæmdastjóri þess en hann hefur verið í fyrirtækinu nánast frá fyrstu dögum þess.

„Við höfum verið að vaxa á hverju einasta ári en fyrirtækið byrjaði árið 1997 og verður því 20 ára á næsta ári. Airport Associates byrjaði í fraktflutningum en í upphafi var einokun hérna og Icelandair var eini aðilinn í flugafgreiðslu á Keflavíkurflugvelli. Hægt og rólega losnuðu þessu höft og árið 2002 hóf fyrirtækið að afgreiða farþegavélar og síðan þá höfum við verið að auka við okkur ár frá ári.“



- Í hugum flestra er Airport Associates fyrirtæki sem sér um afgreiðslu flugvéla með því að koma farangri um borð. Starfsemin er þó mun viðameiri hjá ykkur?

„Við sjáum um allt sem tengist fluginu frá A-Ö. Við innritum farþega þegar þeir koma í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, við afgreiðum töskur og frakt um borð og allt sem þarf við flugvélina, hvort sem það er matvara eða annað. Við afísum flugvélar og sjáum um alla vinnu á flughlaði og ýtum vélum frá flugstöðinni. Þá erum við með vöruhúsaþjónustu með allri alhliða þjónustu, hleðslueftirlit (e. Load Control), við erum við ræstideild sem sér um að þrífa flugvélar og þá erum við með Duty Free-þjónustu fyrir flugvélar og sjáum um þann þátt frá A-Ö þannig að farþegar geti keypt tollfrjálsan varning um borð í flugvélum“.

Sigþór segir starfsemi Airport Associates vera flókna á margan hátt og í mörgum deildum, enda ýmislegt sem þarf að gera til að koma flugvél og farþegum til og frá Keflavíkurflugvelli.

Flugfélögin stækka hratt

- Það hefur verið mikill vöxtur hjá fyrirtækinu á síðustu árum. Hver er ástæðan?

„Vöxtur fyrirtækisins hefur verið stöðugur frá upphafi en árið 2011 þá byrjar, eins og Íslendingar þekkja, hálfgerð sprengja í ferðaþjónustu. Síðan þá höfum við verið að vaxa um 30 prósent á ári en á þessu ári erum við að vaxa mjög mikið, eða um 75 til 80 prósent. Það stafar fyrst og fremst af því að þau flugfélög sem við erum að þjónusta eru að stækka mikið. WOWAIR er að stækka um meira en 100 prósent, WIZZAIR er að fjórfalda starfsemi sína hér á landi og Delta Airlines er að stækka mikið hér á landi og þessi félög eru að búa til þennan mikla vöxt hjá okkur.“

Til marks um það hve hraður vöxturinn er þá gerðu áætlanir fyrir hálfu ári ráð fyrir 25 til 30 prósenta vexti en hann verður 75 til 80 prósent eins og fyrr segir.



- Er ekki flókið að vera með svona mörg og ólík flugfélög í þjónustu?

„Jú, jú, það er mikið flækjustig sem fylgir því. Félögin eru ólík og sum gera miklar kröfur á meðan önnur gera minni kröfur. Við erum að vinna í dag á sex innritunarkerfum og það eru mismunandi verkferlar sem hvert flugfélag kallar eftir, þannig að það er flækjustig sem fylgir því“.

Eins og segir hér að framan stefnir í að starfsmenn Airport Associates verið 520 í sumar en næsta vetur fækkar þeim aftur í 400 til 450. Sumarvertíðin er alltaf stærri í fluginu þó svo að tímabilið sé að lengjast í báða enda. Þá hefur vetrartraffík verið að aukast sem er, að sögn Sigþórs, mun betra fyrir reksturinn í stað þess að þurfa í raun alltaf að vera að starta upp rekstri á vorin og loka á haustin.

Í sumar verða 25 flugfélög í áætlunarflugi til Keflavíkur og Airport Associates er með ríflega 20 þeirra í þjónustu. Sigþór segir fjölda annarra flugfélaga einnig vera í þjónustu hjá fyrirtækinu. Fjöldi flugfélaga noti Keflavíkurflugvöll reglulega á hverju ári þó svo þau séu ekki með áætlunarflug hingað og þar sé Airport Associates að afgreiða miklu fleiri félög.



Ræður við verkefnið en það er alls ekki auðvelt

Aðspurður hvort fyrirtækið ráði við allan þennan vöxt þá segir Sigþór að verkefnið sé alls ekki auðvelt. „En við erum að ráða við vöxtinn. Við þurfum að ráðast í alls konar stækkanir á öllum sviðum og erum að sprengja utan af okkur húsnæðið. Við erum að byggja tvær byggingar hér við aðalbygginguna okkar. Þar verður stórt vöruhús og aðstaða fyrir starfsmenn fyrirtækisins, skrifstofur, hleðslueftirlit og annað slíkt. Alls eru það 4000 fermetrar sem verða byggðir á þessu ári og inn í næsta ár.“

Stækkun á húsnæði er mikil fjárfesting fyrir félagið og þá er einnig verið að kaupa tækjabúnað fyrir hundruð milljóna króna á ári. Þá hefur Airport Associates ráðist í kaup á tveimur fjölbýlishúsum á Ásbrú sem hefur verið breytt í íbúðir fyrir erlent starfsfólk fyrirtækisins. Airport Associates hefur þurft að ráða 120 starfsmenn frá Póllandi og er hluti starfsfólksins þegar kominn til landsins og hefur hafið störf hjá fyrirtækinu. Sigþór segir að fyrirtækið hafi fengið ráðningaskrifstofu í Póllandi til liðs við sig sem hafi unnið alla nauðsynlega undirbúningsvinnu, auglýst eftir fólki og þess háttar. Airport Associates sendi svo stjórnendur út til að taka starfsmannaviðtöl og meta hvort fólk sé hæft. Miklar kröfur eru gerðar til fólks sem starfar á flugvallarsvæðinu og þannig gerði fyrirtækið kröfu um góða enskukunnáttu og hefur nú ráðið til sín stóran hóp starfsmanna sem eru margir hverjir með mikla og góða menntun. „Þetta er virkilega flott fólk,“ segir Sigþór.

Góður aðbúnaður fyrir erlent starfsfólk á Ásbrú

ÍAV hefur undanfarnar vikur unnið að því að standsetja íbúðir í fjölbýlishúsunum á Ásbrú. Þar er aðbúnaður mjög góður. Þar hafa starfsmenn herbergi með hreinlætisaðstöðu, ísskáp og örbylgjuofni. Þá eru eldhús á hverri hæð, stór sameiginleg setustofa með sjónvarpi og þá er rými fyrir námskeiðahald í húsunum enda ýmis námskeið sem starfsmenn á flugvallarsvæðinu þurfa að sækja. ÍAV þjónustar íbúana og heldur til að mynda með þeim vikulega fundi. Við komuna til landsins fá nýju starfsmennirnir upplýsingamöppu um alla helstu þjónustu á svæðinu. Sigþór segist vonast til þess að starfsfólkið verði hér til lengri tíma en bara í sumar. „Við vonumst til þess að þetta fólk setjist hérna að. Ég veit til þess að margir sem við erum að ráða núna eru með fjölskyldu sem á eftir að koma,“ segir Sigþór. Hann segir starfsmennina sem koma frá Póllandi í leit að betri lífsgæðum og tækifærum. Launin hjá Airport Associates séu fimm til sem sinnum hærri en fyrir sambærileg störf í Póllandi.

Sigþór segist heppinn að húsnæði hafi verið á lausu á Ásbrú og hann hafi ekki viljað hugsa þá hugsun til enda hvar hefði átt að koma starfsfólki fyrir með svo skömmum fyrirvara.



Hefur trú á verkefninu

- Er hægt að gera ráð fyrir endalausri aukningu? Hvernig horfið þið á þessa fjárfestingu ykkar til framtíðar?

„Við værum ekki að fjárfesta svona mikið og leggja þetta mikið í þetta nema við hefðum trú á verkefninu. Það eru allar spár sem benda til áframhaldandi vaxtar, kannski ekki svona rosalega mikill en næstu árin talsvert mikill. Þetta byggjum við á spám hagsmunaaðila eins og banka, Isavia og þeirra sem starfa í þessum geira. Ísland er ákjósanlegur kostur fyrir þá sem vilja ferðast og það dregur ekkert úr vinsældum landsins. Ég hef virkilega mikla trú á þessu,“ segir Sigþór Kristinn Skúlason, framkvæmdastjóri Airport Associates.

Texti: Páll Ketilsson og Hilmar Bragi Bárðarson
Myndir: Hilmar Bragi og úr kynningarefni Airport Associates



 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Bæjarstjóri heilsaði upp á nýja starfsmenn Airport Associates