Áherslubreytingar á Café Iðnó
Áherslubreytingar hafa verið gerðar á veitningahúsinu Café Iðnó við Hótel Keflavík, en staðurinn skartar nú fjölbreyttum matseðli með áherslu á hollustu og heilbigði. Þá hefur Café Iðnó fengið andlitslyftingu.
„Við viljum höfða til sem flestra og þess vegna var matseðillinn algerlega tekinn í gegn með það fyrir augum að á honum geti allir fundið eitthvað við sitt hæfi við öll tækifæri. Við leggjum áherslu á hollustu og þess vegna er t.d. ekki að finna neinar transfitusýrur í olíum sem við notum og allar sósur og dressing gerum við sjálf í þessu skyni. Fólk getur t.d. valið um sex mismunandi hamborgara, sem allir eru glóðarsteiktir til að minnka fitu, auk þess sem þeir bragðast betur þannig,“ segir Jón Norðfjorð en hann rekur staðinn ásamt eiginkonunni Ír Björnsdóttur. Café Iðnó býður einnig upp á fjölbreytt úrval af pizzum og auglýsir pizzutilboð í Víkurfréttum í dag. Og eins og nafn staðarins bendir til þjónar hann einnig hlutverki kaffihúss.
Jón segir þau hjónin leggja áherslu á hlýlegt og afslappað andrúmsloft veitingahússins og fóru þess vegna í endurbætur á húsnæðinu. Svo skemmtilega vill til að Jón og matreiðslumeistarar hússins eru allir miklir tónlistarunnendur og mega gestir eiga von á því að þeir taki lagið. Í salnum standa gítarar sem bæði tónelskandi gestir og starfsfólk mega grípa í þegar svo ber undir.