Afkoma hjá Eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. umfram væntingar
Hagnaður af rekstri Eignarhaldsfélagsins Fasteignar hf. á fyrri hluta ársins var ríflega ein og hálf milljón evra, eða um 197 milljónir króna eftir skatta sem er töluvert umfram áætlun. Hagnaður alls ársins 2007 var tæplega þrjár og hálf milljón evra, eða um 435 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Alls á félagið, sem var stofnað í lok ársins 2002, um 130 þúsund fermetra húsnæðis í rekstri eða á byggingarstigi og er verðmæti þess metið á um 33 milljarða króna. Félagið annast fyrst og fremst fasteignaumsvif fyrir eigendur sína sem um þessar mundir eru ellefu sveitarfélög og fjögur fjármálafyrirtæki auk Háskólans í Reykjavík. Á meðal mannvirkja í eigu þess má nefna skóla, leikskóla, íþróttahús, sundlaugar, safnahús og þjónustumiðstöðvar auk húsnæðis fyrir skrifstofur og banka. Samkvæmt reglum félagsins greiðir það eigendum sínum helming hagnaðar í arð.
Eignarhaldsfélagið Fasteign gerir reikninga sína upp í evrum. Ríflega helmingur leigutekna félagsins, eða um 55%, er reiknaður í evrum en um 45% í íslenskum krónum. Leigutekjur á fyrstu sex mánuðum ársins námu 7,7 milljónum evra, eða um 962 milljónum króna, en voru allt árið 2007 tæplega fimmtán milljónir evra eða ríflega 1,8 milljarðar króna. Rekstrargjöld voru á fyrri hluta ársins 2,6 milljónir evra (325 milljónir króna) en voru allt árið 2007 tæplega 5,4 milljónir evra (675 milljón króna). Fjármagnsgjöld námu á fyrri hluta ársins um 3,9 milljónum evra, eða um 487 milljónum króna en voru á árinu 2007 alls um 6,6 milljónir evra eða um 825 milljónir króna. EBITDA sem hlutfall af leigutekjum nam 88,4% sem er umfram væntingar en í áætlunum félagsins var gert ráð fyrir að sú tala yrði 84%.
Bergur Hauksson, framkvæmdastjóri Fasteignar: „Árangur fyrstu sex mánaða ársins er afar ánægjulegur. Félagið hefur vaxið hratt frá stofnun þess fyrir tæplega sex árum og við sjáum fram á umtalsverðan áframhaldandi vöxt á næstu árum. Um þessar mundir önnumst við rekstur um 80 fasteigna fyrir eigendur okkar og erum að auki með byggingarframkvæmdir í gangi fyrir um 3-400 milljónir króna í hverjum mánuði. Eignasafnið er því í örum vexti og reksturinn með þeim hætti að engin ástæða er til annars en að horfa björtum augum til framtíðarinnar.“