Aðstaðan og þjónustan í Eldey skiptir sköpum
– segir Fida Abu Libdeh hjá geoSilica
GeoSilica Iceland ehf hefur það markmið að framleiða hágæða kísilríkar heilsuvörur, úr affallsvatni jarðvarmavirkjana á Íslandi, til að stuðla að bættri heilsu fólks.
Fyrirtækið var stofnað árið 2012 af Fidu Abu Libdeh og Burkna Pálssyni, ásamt Agnir ehf, út frá lokaverkefnum Fidu og Burkna í orku- og umhverfistæknifræði við Háskóla Íslands.
Í lok árs 2014 kom á markað fyrsta varan frá geoSilica en það er hágæða 100% náttúrulegt íslenskt kísilsteinefni í vökvaformi, tilbúið til inntöku.
Nú þegar hefur geoSilica hafist handa við að þróa nýja vöru til að auka vöruúrval fyrirtækisins og mæta enn frekar kísilþörf einstaklinga.
„Það gleður okkur mjög eftir stanslausa rannsóknar og þróunarvinnu í rúm tvö ár að sjá loksins afraksturinn og ennþá betra er að sjá hve fólk tekur henni vel,“ segir Fidu Abu Libdeh.
Kísilsteinefnið er selt í apótekum og heilsuverslunum um land allt, auk þess að vera að koma inná útvalda ferðamannastaði með sumrinu. Í dag er fjöldi þessara sölustaða orðinn 45.
– Hvaða máli skiptir það fyrir ykkur að vera með aðstöðu í Eldey?
„Það skiptir gríðarlegu máli fyrir sprotafyrirtæki að fá allan þann stuðning sem það getur fengið á fyrstu starfsárum sínum. Aðstaðan og þjónustan sem við höfum fengið í Eldey hefur skipt fyrirtækið sköpum á marga vegu síðan það var stofnað. Bæði Kadeco og Heklan hafa sýnt okkur ótrúlegan stuðning í gegnum þennan tíma“.
Í dag starfa sex manns hjá geoSilica og vonast eigendur fyrirtækisins til að þeim eigi eftir að fjölga enn frekar.
(Fréttin birtist í blaðauka um Ásbrú sem fylgdi Víkurfréttum í síðustu viku)