Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Áætlunaflug British Airways hafið
Sunnudagur 26. mars 2006 kl. 12:35

Áætlunaflug British Airways hafið

Þota frá British Airways lenti á Keflavíkurflugvelli í morgun en þetta er fyrsta flugið í áætlunarflugi breska flugrisans á milli Íslands og Gatwick-flugvallar í London. BA mun fljúga hingað til lands fimm sinnum í viku yfir sumarið en fjórum sinnum í viku yfir vetrarmánuðina. Búist er við að farþegum um Flugstöð Leifs Eiríkssonar (FLE) fjölgi um 60 til 70 þúsund á ári í tengslum við flug BA.

Þotan, sem er af gerðinni Boeing 737-400, kom hingað til lands með 66 farþega og hélt aftur af landi brott með 78 manns. Við komuna buðu forsvarsmenn FLE áhöfn vélarinnar velkomin og leystu þau út með bókagjöf. Breski sendiherrann á Íslandi, Alp Mehmet, opnaði flugið svo formlega með því að leysa um slaufu á borða fyrir landganginn út í vél.

Í samtali við Víkurféttir sagði Höskuldur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri FLE að þeir væru afar ánægðir að fá svo stórt flugfélag á áætlunarflug. Flugstöðin er einnig að fá annan risa í áætlunarflug hingað til lands því á mánudag lendir vél SAS-Braathens sem kemur frá Osló.

Sam Heine, viðskiptastjóri BA á Norðurlöndum, sagðist, í samtali við Víkurfréttir, vera himinlifandi með viðtökurnar sem ferðir þeirra hafa fengið. Pantanir hafi verið vel yfir væntingum jafnt til landsins sem og frá og allt útlit væri fyrir blómlegan rekstur.
Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024