Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

Á milli 100 og 200 manns starfa við byggingu virkjunar á Reykjanesi
Laugardagur 17. apríl 2004 kl. 14:35

Á milli 100 og 200 manns starfa við byggingu virkjunar á Reykjanesi

Á milli 100 og 200 manns munu starfa við uppsetningu virkjunar á Reykjanesi á framkvæmdatíma. Gert er ráð fyrir að virkjunin verði gangsett eftir um tvö ár. Veltuaukning Hitaveitu Suðurnesja vegna orkusölusamnings við Norðurál er um einn milljarður króna.
Að sögn Júlíusar Jónssonar forstjóra Hitaveitu Suðurnesja eru 20 megawött óseld, en heildar raforkuframleiðsla virkjunarinnar verður 100 megawött. Segir Júlíus að gera megi ráð fyrir að umframorkan verði seld fyrir um 250 milljónir króna. Framkvæmdir við virkjunina hafa staðið yfir í nokkurn tíma því þær borholur sem boraðar hafa verið nýtast virkjuninni

Spurður um hvað samningurinn þýddi fyrir Suðurnesjamenn í atvinnulegu tilliti sagði Júlíus að hann hefði verulega þýðingu fyrir Suðurnesin. „Það verða á bilinu 100 til 200 manns að vinna á svæðinu stóran hluta framkvæmdatímans. Við vitum ekki enn hvaða verktakar munu vinna verkið. Örugglega munu heimamenn koma talsvert að því, bæði hvað varðar þjónustu og verkefni tengd byggingunni. Við ætlum að gangsetja eftir tvö ár en verkinu lýkur ekki fyrr en haustið 2006.“
Í næstu viku verður auglýst eftir verktökum sem hafa áhuga á að reisa virkjunina og í framhaldi af því er verkið boðið út. „Við vonumst til að á miðju sumri verði fyrsta skóflustungan tekin að virkjuninni,“ sagði Júlíus í samtali við Víkurfréttir.

Myndin: Orkusölusamningar Hitaveitu Suðurnesja og Orkuveitu Reykjavíkur til Norðuráls undirritaðir í Svartsengi í morgun. VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024