93% eigna seldar með 10 milljarða hagnaði fyrir ríkið á tíu árum
- Hagnaður ársins 2016 tæpir 1,2 milljarðar.
Ný stjórn Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, KADECO, var kjörin á aðalfundi félagsins á þriðjudag. Í stjórn voru kjörin Georg Brynjarsson formaður, Hafsteinn S. Hafsteinsson og Steinunn Sigvaldadóttir og í varastjórn Hrafn Hlynsson. Á aðalfundinum var samþykktur ársreikningur fyrir árið 2016 og ársskýrsla kynnt en árið markaði 10 ára afmæli félagsins.
Á fundinum kom fram að á þeim tíu árum sem félagið hefur starfað hafa 93% þeirra eigna sem félagið fékk til umsjónar verið seldar og hefur ríkið hagnast um 10 milljarða á sölu þeirra. Á Ásbrú er nú lífleg íbúabyggð og fjölbreytt atvinnustarfsemi sem hefur styrkt samfélagið í Reykjanesbæ mikið og enn eru fjölmörg ónýtt tækifæri til frekari atvinnuuppbyggingar á svæðinu, sérstaklega vegna nálægðar við Keflavíkurflugvöll, segir í tilkynningu frá KADECO.
Hagnaður ársins tæpir 1,2 milljarðar
Hagnaður Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar árið 2016 fyrir afskriftir og fjármagnsliði var 647 milljónir króna. Að teknu tilliti til fjármagnsliða og áhrifa dótturfélaga var hagnaður félagsins 1.465,2 milljónir króna. Hagnaður ársins eftir reiknaða skatta nam 1.188,2 milljónum króna. Samkvæmt efnahagsreikningi námu eignir samstæðunnar í lok ársins 2016 samtals 10.558 milljónum króna. Heildarskuldir félagsins námu 8.441,1 milljónum króna og eigið fé félagsins nam 2.116,9 milljónum króna.
10 milljarða hagnaður til ríkisins á tíu árum
Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar var stofnað 24. október árið 2006 og því markaði árið 2016 tíu ára afmæli félagsins. Markmið ríkisins með stofnun félagsins var að koma eignum sem ríkið tók yfir á varnarsvæðinu á Miðnesheiði sem fyrst í skipuleg, hagfelld, borgaraleg not með sem mestum jákvæðum áhrifum á nærsamfélagið.
Þegar félagið tók til starfa var verðmæti eigna ríkisins metið á 4 til 5 milljarða króna. Nú þegar sér fyrir endann á sölu þeirra fasteigna sem félagið fékk í sína vörslu er ljóst að söluverðmæti þeirra verði um 18 milljarðar króna. Þannig munu hreinar tekjur ríkissjóðs af sölu eignanna nema um 10 milljörðum króna.
Í dag búa um 2.500 manns á Ásbrú og þar starfa á annað hundrað fyrirtæki og stofnanir á ýmsum sviðum með yfir 800 starfsmönnum. Á svæðinu eru starfrækt fimm gagnaver stór og smá, stórskala örþörungaræktun, menntastofnun, fjöldi hótela, gistiheimila og annarra þjónustufyrirtækja auk grunnskóla og tveggja leikskóla. Þegar allt er lagt saman nemur heildarfjárfesting frá árinu 2006 vel á annað hundrað milljarða króna, segir í tilkynningu félagsins.