900% aukning í sölu á bökunarvörum
- bökunaræði virðist hafa gripið landann.
Sala á bökunarvörum í netverslun Nettó í ár er næstum 900% meiri en á sama tíma og í fyrra. Bökunaræði virðist hafa gripið um sig meðal Íslendinga og jólabaksturinn augljóslega farið fyrr af stað en síðustu ár.
„Það fer ekki á milli mála að fólk er að baka talsvert meira heima en áður. Tölurnar tala sínu máli. Hveiti, sykur, lyftiduft og aðrar bökunarvörur rjúka út hjá okkur. Það felast líka mikil þægindi í því að geta pantað þessar vörur á netinu og sótt í næstu verslun eða fengið heimsent,“ segir Gunnar Egill Sigurðsson, framkvæmdastjóri verslunarsviðs Samkaupa.
Aukning í bökunarvörum í verslunum Nettó er einnig margföld á við aðra vöruflokka og sala á lífrænum vörum jókst einnig mikið og er einn stærsti vöruflokkurinn í netversluninni.
„Jólabaksturinn virðist fara mun fyrr af stað í ár. Ástandið sem ríkir í þjóðfélaginu hefur örugglega sitt að segja þegar margir eru skikkaðir til að vinna að heiman. Við sáum einnig aukna sölu á bökunarvörum í fyrstu bylgjunni þegar súrdeigsbrauðsæði greip landsmenn en þó ekkert í líkingu við þessar ótrúlegu tölur,“ segir Gunnar Egill. „Fólk virðist engu að síður vera að huga að heilsunni því sala á heilsuvörum og lífrænum vörum jókst líka töluvert á milli ára.“
Netverslun Nettó er langstærsta netverslun landsins í matvöru. Nettó er hluti af Samkaupum sem reka ríflega 60 verslanir víðs vegar um landið. Þær spanna allt frá lágvöruverðsverslunum til þægindaverslana. Helstu verslanamerki Samkaupa eru eins og fyrr segir Nettó, Kjörbúðin, Krambúðin, Iceland og Samkaup strax.