Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

60 sumarstarfsmenn hjá Bláa lóninu
Sunnudagur 26. ágúst 2012 kl. 09:21

60 sumarstarfsmenn hjá Bláa lóninu

„Sumarið hefur gengið vel hjá okkur hér í Bláa lóninu. Megináhersla okkar hefur verið á upplifun gesta okkar og gott þjónustustig.  Við höfum hlotið góð viðbrögð gesta okkar og fengum m.a. þrjár viðurkenningar Trip Advisor í sumar. Sem lið í því að bjóða meiri upplifun, taka hana skrefinu lengra – bjóðum við nú áhugaverðar skoðunarferðir um svæðið,“ segir Magnea Guðmundsdóttir, kynningarstjóri Bláa lónsins, eins vinsælasta ferðamannastaðar á Íslandi.

Ferðin sem kallast Uppgötvaðu undur Bláa lónsins veitir tækifæri til að upplifa Bláa lónið á óhefðbundinn hátt.  Fróðleikur um arkitektúr Bláa lónsins sem er dæmi um samspil náttúru og mannvirkja, upplýsingar um jarðfræði og jarðvarma og hraunið sem umlykur Bláa lónið er meðal þess sem fjallað er um í ferðunum. „Vísindastarf Bláa lónsins er einn áhugaverðasti þáttur starfseminnar. Sett hefur verið upp líkan af lítilli færanlegri rannsóknastofu „Crazy lab“ þar sem þátttakendur fá að kynnast virkum efnum Bláa lónsins sem eru: kísill, steinefni og þörungar,“ en leiðsögnin er í höndum menntaðra leikara.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þá er það einnig sérstaklega ánægjulegt að segja frá því að við réðum til okkar 60 sumarstarfsmenn og er það dæmi um þau störf sem ferðaþjónustan skapar,“ segir Magnea.

Tækifæri í vetrarferðaþjónustu
„Sumarið í sumar hefur verið annasamt hjá okkur í Bláa lóninu eins og hjá flestum ef ekki öllum fyrirtækjum í ferðaþjónustu. Meirihluti gesta okkar kemur yfir hásumarið og því er umtalsverður munur á fjölda gesta yfir sumar- og vetrartímann.“

Magnea segir mikil tækifæri felast í vetrarferðamennsku og aukin markaðssetning á Íslandi utan háannatímans sé afar jákvæð. „Við hjá Bláa lóninu höfum tekið þátt í markaðsverkefninu Ísland allt árið ásamt öðrum lykilfyrirtækjum í ferðaþjónustu og íslenskum stjórnvöldum.“

Magnea segir að þau hjá Bláa lóninu verði vissulega vör við það að gestir þeirra hafi áhuga á öðrum stöðum hér á Reykjanesi og vilji dvelja lengur á svæðinu. „Við viljum styðja við ferðaþjónustu á svæðinu og sem lið í því bjóðum við ferðaþjónustufyrirtækjum að hafa bæklinga sína hér hjá okkur. Í vetur munum við taka í notkun nýtt þjónustuhús sem mun einnig hýsa upplýsingamiðstöð og verður þá allt upplýsingaefni um aðra möguleika í ferðaþjónustu enn aðgengilegra.

Við leggjum einnig áherslu á að segja erlendum blaðamönnum sem hingað koma frá öðrum möguleikum á svæðinu en árlega tökum við á móti um 500 erlendum blaðamönnum. Umfjöllun í erlendum fjölmiðlum skiptir okkur gríðarlega miklu máli. Fyrr á þessu ári valdi National Geographic Bláa lónið t.a.m. sem eitt af 25 undrum veraldar. Auk þeirra gesta sem sækja Blue Lagoon Spa þá koma einnig fjölmargir erlendir gestir vegna psoriasismeðferðarinnar sem veitt er í Bláa lóninu – lækningalind. Árlega koma meðferðargestir okkar frá um 20 þjóðlöndum og flestir dvelja hjá okkur í tvær til þrjár vikur.“

Vetrarkort eru hentug fyrir íbúa á Reykjanesi
„Fyrir Suðurnesjamenn og aðra þá sem vilja heimsækja okkur reglulega henta árs- og vetrarkortin mjög vel. Vetrarkortin sem gilda frá 1. september til 31. maí kosta kr. 10.000,- fyrir einstakling og kr. 15.000,- fyrir fjölskyldu og gilda þá fyrir tvo fullorðna og fjögur börn 16 ára og yngri“, sagði Magnea.