Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

41.810 tonnum landað í Grindavíkurhöfn
Fimmtudagur 12. janúar 2012 kl. 09:27

41.810 tonnum landað í Grindavíkurhöfn

Alls var 41.810 tonnum af botnfiski landað í Grindavík árið 2011. Aflasamdrátturinn er um fimm þúsund tonn á milli ára en engu að síður heldur Grindavík 3. sæti sem aflahæsta höfn landsins samkvæmt yfirliti Fiskistofu. Grindavíkurhöfn hefur verið með rétt yfir 40 þúsund tonn síðan 2007 en Reykjavíkurhöfn er í sérflokki í 1. sæti og Hafnarfjarðarhöfn í 2. sæti.

Á árinu 2007 var 113.649 tonnum landað á höfnum höfuðborgarsvæðisins en á nýliðnu ár var landaður afli 147.054 tonn. Þetta er aukning upp á 29%. Höfuðborgarsvæðið jók einnig hlutdeild sína í lönduðum afla á landsvísu á ofangreindu tímabili úr 24,8% í 31,9%. Hlutdeild hafna á Norðurlandi vestra hefur minnkað úr 6,2% niður í 5,3% og á Austurlandi úr 12,2% niður í 9,2%.

Miklar breytingar hafa orðið í lönduðu magni hjá einstaka höfnum. Á Breiðdalsvík var árið 2007 landað 108 tonnum af botnfiski en á síðasta ári var hins vegar landað 2.582 tonnum. Umtalsverð aukning varð einnig á Þingeyri en þar fór aflinn úr 400 tonnum í 2.106 tonn á ofangreindu tímabili. Umtalsverð aukning hefur einnig orðið á nokkrum öðrum höfnum á ofangreindu tímabili. Þessa miklu aukningu í mörgum minni höfnum landsins má þakka tilkomu strandveiða.

Hins vegar hefur orðið samdráttur í lönduðu magni á fjölmörgum stöðum allt í kringum landið. Samdrátturinn hefur numið meira en 80% á fáeinum stöðum auk þess sem löndun hefur lagst af á öðrum. Meðal staða sem hafa mátt þola mikinn samdrátt er Akranes en þar er samdrátturinn tæp 84% sé litið til breytinga á lönduðu magni 2007 og 2011. Árið 2007 var 6.926 tonnum landað þar en í fyrra var aðeins landað 1.097 tonnum. Önnur höfn þar sem samdrátturinn í löndun á botnfiski er verulegur er Flateyri þar sem samdrátturinn nam rúmlega 77%.

Landaður botnfiskafli:

1. Reykjavík 21% - 96.960 tonn
2. Hafnarfjörður 10,8% - 49,899
3. Grindavík 9,1% - 41,810
4. Vestmannaeyjar 5,6% - 25.635
5. Bolungarvík 3% - 14.035
6. Rif 3% - 13,827

Sandgerði 3,3% - 15.142
Keflavík 2,1% - 5,607

Mynd: Löndun í Grindavíkurhöfn

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024