14% aukning í Leifsstöð í október
Alls fóru 38.836 erlendir ferðamenn úr landi um Leifsstöð í október samkvæmt talningum Ferðamálastofu eða tæplega 5 þúsund fleiri en í október á síðasta ári. Aukningin nemur 14% á milli ára. Um er að ræða fjölmennasta októbermánuð frá upphafi mælinga.
Ferðamálastofa segir í tilkynningu að ferðamönnum frá Norður-Ameríku hafi fjölgað verulega líkt og aðra mánuði ársins, eða um 41,1%.
Þá segir að Bretum hafi fjölgað um 17,7%, Mið- og S-Evrópubúum um 12,2% og ferðamönnum frá löndum sem eru flokkuð undir „Annað“ um 11,4%. Norðurlandabúar eru hins vegar álíka margir og í fyrra.
Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í október frá Bretlandi (19,8%) og Bandaríkjunum (14,3%). Ferðamenn frá Noregi (9,6%), Danmörku (8,9%), Svíþjóð (6,3%), Þýskalandi (5,7%) og Kanada (5,1%) fylgdu þar á eftir. Samanlagt voru þessar sjö þjóðir 70% ferðamanna í október.
Það sem af er ári hafa 496.896 erlendir ferðamenn farið frá landinu um Leifsstöð eða tæplega 78 þúsund fleiri en á sama tímabili í fyrra. Aukningin nemur 18,5% á milli ára. N-Ameríkönum hefur fjölgað mest milli ára eða um 49,5%, Norðurlandabúum hefur fjölgað um 15%, Mið- og S-Evrópubúum um 13,8%, Bretum um 10,2% og ferðamönnum frá öðrum löndum um 13,1%.
Ferðir Íslendinga utan
Brottfarir Íslendinga voru 32.153 í október eða 6,3% fleiri en í fyrra þegar þær voru 30.252. Frá áramótum hafa 292.354 Íslendingar farið utan, 17,5% fleiri en á sama tímabili árinu áður þegar brottfarir mældust tæplega 249 þúsund. Frá þessu er greint á mbl.is.