Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Viðskipti

1000 máltíðir á dag
Þriðjudagur 7. maí 2013 kl. 09:54

1000 máltíðir á dag

Menu veitingar hafa undanfarið starfrækt eldhús sitt í Offiseraklúbbnum á Ásbrú. Þar fer Ásbjörn Pálsson matreiðslumeistari fyrir starfsliði sem að jafnaði telur 12-14 manns og framleiðir um 1000 máltíðir á dag.

Undanfarnar vikur hafa þó verið uppgrip hjá Menu veitingum því fyrirtækið sér um allan mat fyrir starfsmenn og flugmenn flugsveita sem annast loftrýmiseftirlit frá Keflavíkurflugvelli. Þessi uppgrip hafa kallað á fjögur auka störf og þannig hefur það verið undanfarin misseri þegar þessar flugsveitir koma til landsins. Þá þurfa Menu veitingar að sjá um allar máltíðir allan sólarhringinn, allt frá morgunverði og til nætursnarls.

Allt árið um kring eru Menu veitingar að sjá um mat fyrir mötuneyti og að afgreiða svokallaðan bakkamat í fyrirtæki. Úr fimm réttum er að velja á hverjum degi, bæði kjöti og fiski. Nú eru t.a.m. tíu fyrirtæki sem vinna að breytingum á Flugstöð Leifs Eiríkssonar að fá sendan mat fyrir iðnaðarmenn sína. Einnig er sendur matur víða um Suðurnes, til Hafnarfjarðar og jafnvel alla leið upp í Hellisheiðarvirkjun.

Ásbjörn segir fyrirtækið hafa vaxið hægt og rólega frá því hann tók við því árið 2007 en eldhúsið flutti starfsemi sína í Offiseraklúbbinn árið 2009. Hann sagði eldhúsið gott og Offiseraklúbbinn vera skemmtilegt húsnæði. Í samstarfi við Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar, Kadeco, sjá Menu veitingar um útleigu á veislusölum Offiseraklúbbsins og sjá einnig um veitingar í húsinu. Þar sé vinsælt að halda árshátíðir og oftar en ekki sé þemað í mat á ameríska vísu. Menu veitingar eru einnig í veisluþjónustu en stærsta einstaka veislan sem fyrirtækið hefur annast skartaði 1800 gestum.
 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024