„Suður á vertíð“
2021, já það er komið nýtt ár og það þýðir að framundan er vetrarvertíðin 2021. Skemmtilegasti tími ársins hérna á Suðurnesjum.
Af hverju svona skemmtilegur? Jú, mikið líf verður í höfnunum þremur en þó aðallega í Sandgerði og í Grindavík enda verður þessi vertíð örugglega góð eins og undanfarin ár.
Að fara Suður á vertíð eru orð sem má finna í bókum og ritum tugi ára aftur í tímann og jafnvel svo langt aftur í tímann að við erum að tala um meira enn 100 ár aftur í tímann. Á þeim tímum þá var mikið um að menn komu frá gangandi eða á hestum yfir landið til þess að komast „suður á vertíð“ og þá var iðulega róið á árabátum frá vörum sem voru víðsvegar við ströndina, t.d á leiðinni frá golfskálanum í Leiru og áleiðis að Garðskagavita eru mjög margir staðir sem heita með endingunni Vör eða Varir. Þar var óhætt að koma báti sínum í gegnum brimið og í örugga höfn.
Þegar leið á árin og bátarnir fóru að vélvæðast þá hélt þetta orðatiltæki „suður á vertíð“ áfram en þá komu sjómennirnir ekki labbandi eða á hestum til Suðurnesja heldur komu þeir með bátum sínum. Að mestu þá voru þetta bátar frá Austur- og Norðurlandinu sem komu „suður á vertíð“ og sumir bátanna komu ár eftir ár – og var Keflavík þá mun stærri löndunarhöfn en Grindavík, t.d á árunum 1955 til 1965.
Núna árið 2020 er þetta nokkuð breytt. Ekki getum við lengur sagt þetta „suður á vertíð“ því að bátunum hefur fækkað svo mikið að það eru fáir sem engir bátar eftir til þess að koma „suður á vertíð“. Sjáum t.d. á Austurlandi. Þar er enginn bátur sem rær á netum og einu bátarnir þaðan sem munu koma hingað suður eru Sandfell SU og Hafrafell SU en áhafnir á báðum þessum bátum eru að stóru leyti frá Suðurnesjum. Á Sandfelli SU eru nokkrir frá Grindavík og á Hafrafelli SU eru nokkrir frá Sandgerði og Keflavík á bátnum.
Á Norðurlandi er enginn netabátur sem kemur „suður á vertíð“, eini netabáturinn þar er Geir ÞH frá Þórshöfn en hann fer til Grundarfjarðar.
Þó að þetta líti út fyrir að vera algjörlega dautt orð „suður á vertíð“ þá er nú ljós í enda ganganna. Því að eftir að breytingar voru gerðar á veiðum dragnótabátanna og þeim leyft að veiða um allt land án kvaða, þá hef ég heimildir fyrir því að það muni koma alla vega einn dragnótabátur „suður á vertíð“ og þeir gætu reyndar orðið fleiri.
Sem sé að uppistaðan í bátunum sem róa á vertíð frá Suðurnesjum á vertíð árið 2021 verður því að mestu bátar í eigu einstaklinga eða fyrtækja sem eru staðsett á Suðurnesjum.
Og það munu komar nýir bátar, veit alla vega af einum línubáti sem mun koma til Sandgerðis seinna í janúar, sá bátur er um tíu tonn af stærð.
Milli jóla og nýars árið 2020 réru ansi margir bátar bæði á línu og netum og var mokveiði hjá sumum bátanna – og miðað við hversu góð veiði var hjá þeim þá má búast við ansi miklu fjöri á vertíðinni 2021. Nefna má að Guðrún Petrína GK, sem Dóri skipstjóri og eigandi af Stafnes harðfiski á, landaði sextán tonnum í aðeins tveimur róðrum. Axel skipstjóri sem kom með nýjan bát til Sandgerðis í desember fór tvo róðra á Nýja Víkingi NS og landaði 7,8 tonnum og er mynd af bátnum hérna með þessum pistli en þar er báturinn með um 3,5 tonn sem fékkst á aðeins þrettán bala.
Guðrún GK 96 sem rær á netum var með 7,3 tonn í þremur og hann var eini netabáturinn sem réri 31. desember. Sunna Líf GK, Maron GK, Halldór Afi GK voru allir með um 6,5 til 7 tonn eftir tvo róðra 29. og 30. desember. Margrét GK sem er á línu var með 23 tonn í þremur róðrum.
Gísli Reynisson.
aflafrettir.is