Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

 „It‘s the End of the World as We Know It“ – og hvað svo?
Föstudagur 27. mars 2020 kl. 08:42

„It‘s the End of the World as We Know It“ – og hvað svo?

Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur

 „It‘s the End of the World as We Know It“ er ekki bara lag með hljómsveitinni R.E.M. – í dag er það einfaldlega staðreynd. Á örfáum dögum er allt breytt og sjálfsagðir hlutir virðast fjarlægur draumur. Við megum ekki hittast, heilsast, faðmast eða yfirleitt gera nokkuð saman og orð eins og „samkomubann“, „sóttkví“ og „fordæmalausar aðstæður“ heyrast í annarri hvorri setningu, alls staðar, hjá öllum. 

Þetta er frekar leiðinlegt ástand. Við erum öll kvíðin, ekki bara fyrir fj... veirunni, heldur ekki síður fyrir efnahagsafleiðingum hennar. „It‘s the End of the World as We Know It“ er nefnilega frekar súrt; akkúrat núna er staðan þannig að eðlilegir hlutir eins og frelsi, ferðalög, viðskipti og mannamót eru ekki lengur í boði. Og það sem er enn leiðinlegra er að við höfum ekki hugmynd um hversu lengi þetta ástand varir og hvenær við komum okkur sem heimssamfélag aftur í gang. Sem betur fer eigum við frábært fagfólk á sviði almannavarna og heilbrigðisþjónustu sem leggja okkur línur og við treystum. Fyrir það ber að þakka, sem og stjórnvöldum sem hafa staðið sig vel í erfiðum aðstæðum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þetta er sem sagt heilmikil krísa. Við vitum hins vegar að þetta mun ganga yfir og á endanum munum við ná tökum á þessu ástandi og lífið mun fara í sinn vanagang. Núna, í krísunni miðri, er kannski erfitt að sjá tækifæri, eða yfirleitt einhverjar bjartar hliðar á þessu ástandi. En það er einmitt þá sem við eigum að reyna það sem mest. Við eigum nefnilega aldrei að sóa góðri krísu því að í gegnum heimssöguna hafa krísur einmitt verið uppspretta nýsköpunar, þróunar og framfara. Þegar við getum ekki lengur gert hlutina eins og við höfum alltaf gert þá neyðumst við til að bregðast við, við þurfum einfaldlega að finna lausn á vandamálum sem voru ekki áður til staðar. Ísland tók stórstígum framförum og var hitaveituvætt þegar olíuverð rauk upp úr öllu valdi í olíukrísunni miklu upp úr 1970. Það varð einfaldlega of dýrt fyrir þjóðarbúið að sóa verðmætum á innflutta, mengandi olíu og ákvörðun var tekin um að nýta frekar innlenda, sjálfbæra auðlind til húshitunar. Ég leyfi mér að fullyrða að þetta sé með betri ákvörðunum í Íslandssögunni. 

Núna, einungis á nokkrum dögum hefur atvinnulífið í öllum heiminum umturnast. Við sjáum strax þróun í mikilvægri fjarheilbrigðisþjónustu og tæknilausna á því sviði. Allir sem geta eru að vinna heima, og meira að segja stóri bróðir minn er farinn að mastera fjarfundi heiman frá sér. Víkurfréttir bregðast við með því að koma út í rafrænt og heimsendingar á matvöru og öðrum varningi er heitasta viðskiptatækifærið í dag. Þetta er bara byrjunin því krísur geta af sér nýsköpun. Við megum ekki gleyma því.

Við munum komast í gegnum þetta og við munum verða betri og sterkari. Því eins og segir í margumræddu lagi: 

„It‘s the End of the World as We Know It..and I feel fine“!