Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Yfir 52.000 tonnum landað
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 7. janúar 2022 kl. 10:00

Yfir 52.000 tonnum landað

22 plús 20, samtals 42 og 4 plús 2 eru 6 og við getum deilt því niður í 3. Já, það er komið nýtt ár, árið 2022, og bara nokkuð góðar tölur, og vonandi verður þetta ár bara jafn gott og þessar tölur.

Í þessum pistli ætla ég að líta yfir árið 2021 hjá höfnum  Suðurnesja og fara yfir hversu miklum afla var landað þar. Við skulum byrja í Grindavík.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Grindavík er stærsta höfnin varðandi landaðan afla og árið 2021 komu á land þar alls rúm þrjátíu og fimm þúsund tonn frá bátum, línubátum og togbátunum. Auk þess var landað tæpum 17 þúsund tonnum frá frystitogurunum. Heildarfjöldi landana var 1785.

Sá bátur sem oftast landaði í Grindavík á síðasta ári var Sævík GK sem kom alls í 74 skipti með afla til Grindavíkur og í þeim róðrum var aflinn alls 557 tonn eða 7,6 tonn í róðri. Ekki er langt niður í næstu báta, því Daðey GK var með 70 landanir og alls 492 tonna afla eða 7,1 tonn í róðri og síðan Dúddi Gísla GK með 69 landanir og 480 tonna afla eða 6,9 tonn í róðri.

Ef við horfum á stærri bátana þá var t.d. línubáturinn Sighvatur GK með 2.783 lönduð tonn í Grindavík, Páll Jónsson GK var með 2.522 tonn í Grindavík. Nokkrir togbátar voru að landa í Grindavík og þeirra hæstur var Vörður ÞH með 2.937 tonn, þar á eftir kom Áskell ÞH með 2.849 tonn og síðan Sturla GK með 2.597 tonn.

Um 80% af þessum þrjátíu og fimm þúsund tonna afla sem kom á land í Grindavík komu á vetrarvertíðinni. Um haustið var litlum afla landað í Grindavík því flest allir bátarnir voru úti á landi og var aflanum ekið til Grindavíkur.

Sandgerði er sem fyrr ein af stærstu löndunarhöfnum Íslands og árið 2021 var þar engin undantekning. Heildarfjöldi landanna var 2.523 og aflinn alls um þrettánþúsund og fimm hundruð tonn. Er þetta allt bátaafli því að enginn togari kom með afla nema Berglín GK sem kom samtals með um 200 tonn.

Þrír bátar lönduðu yfir 100 skipti í Sandgerði og sá sem oftast landaði var Siggi Bjarna GK sem kom í 136 skipti í Sandgerði og með samtals 1.405 tonn eða 10,3 tonn í róðri. Sigurfari GK var ekki langt á eftir Sigga Bjarna GK en hann kom í 132 skipti með afla og samtals 1.665 tonn eða 12,6 tonn í róðri. Benni Sæm GK var með 112 landanir og samtals 1.146 tonna afla eða 10,2 tonn í róðri.

Á eftir þessum bátum, sem allir voru á dragnót, kom síðan Margrét GK með alls 69 landanir og 435 tonna afla eða 6,3 tonn í róðri. Dóri GK var með 62 landanir og alls 310 tonna afla eða 5 tonn að meðaltali.

Uppsjávarfiski, makríl, síld eða loðnu var ekki landað á Suðurnesjum á nýliðnu ári.

Í Reykjanesbæ komu alls tæp fjögur þúsund tonn á land og landanir þar voru alls 657. Það kemur kannski ekki á óvart en meirihluti landana í Reykjanesbæ kemur frá bátunum hans Hólmgríms, því af þessum 657 löndunum þá áttu bátar frá Hólmgrími 504 landanir eða 77% af heildarfjölda landana í Reykjanesbæ.  

Tveir bátar fóru í fleiri enn 130 landanir í Reykjanesbæ og var ekki mikill munur á þeim, því að Halldór Afi GK var með 136 landanir og Maron GK var með 135 landanir.  

Tveir togarar lönduðu í Reykjanesbæ, Berglín GK var með 296 tonn þar og Sóley Sigurjóns GK 228 tonn. Reyndar kom Bylgja VE með eina löndun og Áskell ÞH og Vörður ÞH lönduðu báðir í Reykjanesbæ. Áskell ÞH var með 288 tonn í fimm löndunum og Vörður ÞH 226 tonn í þremur löndunum.

Aðeins tveir smábátar lönduðu í Reykjanesbæ og var það Snorri GK 1 sem var með 3,4 tonn í sex róðrum og Þröstur BA 48 sem var með 3,2 tonn í fjórum róðrum.

Varðandi Reykjanesbæ þá var af þessum tæpum fjögur þúsund tonnum sem landað var þar, mestum hluta þess landað í Njarðvík.  T.d. landa Grímsnes GK, Langanes GK, Maron GK, Áskell ÞH, Vörður ÞH og Berglín GK allir afla sínum í Njarðvík.  

Núna er framundan stærsta loðnuvertíðin í mörg ár og ef allt ætti að vera eðlilegt þá væri loðna að koma til Grindavíkur, Sandgerðis og Helguvíkur en ekkert kemur núna en spurning hvort að SVN ræsi verksmiðjuna í Helguvík.