F-orðið
Nú þarf ég að leggja fyrir ykkur spurningu. Svo virðist sem það séu ekki allir á sama máli um þessa enskuslettu sem virðist með öllu hafa tekið yfir íslenskt tungumál og komist svo langt að oft má heyra slíkt blótsyrði í annarri hverri setningu hjá ungu fólki.
Okkar fámenna þjóð hefur lagt mikið upp úr því að undanförnu að halda sem fastast í íslenskuna. En sjaldnast má heyra orð eins og fjandinn, fjárinn, skrambinn, ansans og endemis... nú eða bara helvítis og andskotans. Það er allt saman f þetta og f hitt, og er það bæði notað yfir jákvæðar og neikvæðar staðhæfingar. F-orðið virðist þannig ekki lengur vera talið blótsyrði heldur einhvers konar áhersluorð í daglegu tali.
Ég las meira að segja grein fyrir ekki svo löngu þar sem því var staðfastlega haldið fram að konur sem notuðu f-orðið væru taldar gáfaðri en þær sem gerðu það ekki.
Þegar ég fór að leita skýringa á þessu fann ég rannsókn þar sem talað var um að konur sem blóta byggju yfir betri orðaforða. Það er nú varla hægt að tengja slíkt saman ef aðeins er um þetta eina f-orð að ræða.
Einn frægasti barnabókahöfundur landsins kom fram í þætti Ísdrengjanna fimm og sagði vart meira en eina setningu. Í þessari einu setningu var sérstök áhersla lögð á þetta fræga blótsyrði. Sonur minn, fimm ára, horfði undrunaraugum á mig og sagði:
„Mamma, hún sagði f-orðið.“ Þegar börnin okkar eru farin að taka eftir þessu svona snemma, hvert stefnir þetta þá? Kannski er þetta bara hluti af eðlilegri breytingu tungumálsins. En á sama tíma er spurning hvort við séum um leið að missa eitthvað – litríkari orðaforða og menningarlega sérstöðu sem fylgir gömlu íslensku blótsyrðunum.
Spurningin mín er því sú: Er þetta af eða á? Ég hallast eindregið að því að þetta sé af – og væri ekki verra ef við rifjuðum upp gamla góða skrambann.







