Við áramót
Í lok árs stöldrum við gjarnan við, lítum annars vegar um öxl og förum yfir það helsta sem til tíðinda bar á árinu, og hins vegar skyggnumst við fram á veginn og horfum til þess nýja árs sem í hönd fer.
Viðburðaríkt ár
Árið 2021 var Suðurnesjamönnum minnisstætt. Árið byrjaði með auknum jarðhræringum, einkum á sunnanverðum skaganum og í nágrenni Grindavíkur. Íbúa Voga fóru ekki varhluta af þessum hræringum, og fundu vel og greinilega fyrir þessum áköfu skjálftum. Jafn undarlega og það hljómar þá voru íbúar hér hálf fegnir eftir að tók að gjósa upp úr miðjum mars, því þá sljákkaði í jarðskjálftunum. Eldgosið með öllu því sem því fylgdi hafði einnig umtalsverð áhrif, fyrir kom að loftgæðin fóru niður fyrir heilsusamleg mörk auk þess sem nálægð spúandi hefur auðvitað einnig sín áhrif. Faraldurinn skæði vill ekki enn yfirgefa okkur og hefur að því leytinu til haft sín áhrif allt árið. Nú í árslok er eins og hann sé skæðari sem aldrei fyrr, veiran virðist vera á mikilli ferð í öllu samfélaginu. Við höfum sem betur fer séð atvinnuleysið lækka markvisst, eftir að það hafði áður náð hæstu hæðum. Rekstur sveitarfélagsins hefur borið þess merki að hinar ytri aðstæður eru erfiðar. Við sjáum sem betur fer hægan en öruggan viðsnúning, ekki síst eftir að hafa ráðist í gagngera skoðun á starfseminni allri.
Suðurnesin og tækifærin
Suðurnesin eru ört vaxandi landshluti, það styttist í að íbúafjöldinn nái 30 þúsund íbúa markinu. Í öllum sveitarfélögunum fjórum er fjölgun íbúa mikil – og talsvert umfram landsmeðaltal. Mikil uppbygging er áformuð hér í Vogum líkt og annars staðar á Suðurnesjum, sem á eftir að skila fjölgun íbúa og íbúða. Slíkum vexti fylgja eflaust vaxtaverkir, það felast miklar áskoranir í því að takast á við þennan mikla vöxt og öllu því sem honum fylgir. Það felast á hinn bóginn mikil tækifæri í vextinum, slagkraftur landshlutans og samfélaganna sem þar eru, eykst jafnt og þétt. Við sjáum mikla framþróun í atvinnu og nýsköpun, þrátt fyrir að grundvallarstoðin (ferðaþjónustan) hafi látið undan við þær erfiðu aðstæður sem ríkt hafa í samfélaginu öllu undanfarin misseri. Tækifærin hér eru mörg og af ýmsum toga. Landshlutinn er ríkur af auðlindum, bæði í sjó og í jörðu. Það er hlutverk okkar að hlúa vel að þeim vaxtarsprotum sem víða leynast, og veita þeim brautargengi til að eflast og dafna.
Uppbygging innviða
Nú hillir undir lok tvöföldunar Reykjanesbrautar, en síðasti kaflinn (frá Hvassahrauni að Hafnarfirði) fer í útboð á nýju ári. Þá er einungis eftir kaflinn frá Fitjum að Flugstöð Leifs Eiríkssonar eftir. Uppbygging heilsugæsluþjónustu er einnig að taka við sér, þegar hefur verið auglýst eftir nýju húsnæði fyrir starfsemi heilsugæslu, og miklar endurbætur eiga sér samhliða stað á húsnæði HSS. Allt skapar þetta betri aðstæður fyrir mannlífið og eykur á lífsgæðin.
Framtíðin er björt
Árið 2022 verður okkur vonandi jákvætt og gott. Markaðsstofa Reykjaness hitti naglann á höfuðið þegar landshlutanum er lýst í einni setningu: „Reykjanes er lífæð landsins þar sem ægifegurð fylgir þér við hvert fótmál.“ Þetta eru orð að sönnu. Við skulum horfa bjartsýn fram á veginn og með jákvæðum hug. Megi árið 2022 verða okkur öllum farsælt, friðsælt og gjöfult. Gleðilegt ár!
Ásgeir Eiríksson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Voga