Verð á mörkuðum gott
Þá er desembermánuðurinn kominn í gang og hann byrjar bara nokkuð vel. Það ber reyndar lítið á því að það sé kominn vetur, því ennþá hefur ekkert snjóað, og veðurfarið hefur verið það gott að færabátarnir hafa getað haldið áfram að róa í Röstina til að eltast við ufsann.
Og veiðin hjá þeim bátum hefur dregið að sér báta víða að, t.d. þá hefur bátunum fjölgað þó nokkuð og til að mynda kom Gísli ÍS til veiða frá Flateyri, Sigfús B ÍS kom frá Suðureyri, Sleipnir ÁR kom frá Ólafsvík og Snorri HF kom frá Hafnarfirði. Það sem trekkir bátana í þennan veiðiskap að mestu er það að verð á ufsa á fiskmörkuðum hefur verið mjög hátt, eða um og yfir 300 krónur á kílóið sem er feikilega gott því að leiguverð á ufsakvóta er miklu lægra eða hátt í 50 krónur á kílóið.
Veiðin hefur verið mjög góð en vegna þess hversu stuttan tíma dagsbirtan varir er veiðitíminn svo til einungis frá u.þ.b. klukkan tíu fyrir hádegi til fimm eftir hádegi. Engu að síður hafa bátarnir verið að ná þetta upp í tvö tonn eftir daginn og þegar að verðið á mörkuðum er svona gott, eins og það er fyrir ufsann, þá er þetta ansi góð dagslaun.
Flestir bátanna eru að róa frá Sandgerði en líka eru bátar frá Grindavík. Nokkuð styttra er að róa á miðin frá Grindavík en Sandgerði en menn láta það ekki á sig fá að fara til Sandgerðis.
Nóvembermánuður var mjög góður aflamánuður og sérstaklega hjá línubátunum. Til að mynda mokveiddu sjómenn á línuskipunum hjá Vísi ehf. og ansi magnaðar tölur sáust. Sem dæmi var Fjölnir GK með 592 tonn í fimm róðrum, eða um 118 tonn í róðri og mest 134 tonn, svo til öllu landað á Skagaströnd.
Páll Jónsson GK átti metmánuð því báturinn landaði 690 tonnum í fimm róðrum, eða 138 tonn í róðri og mest 153,6 tonn. Öllum aflanum var landað á Skagaströnd.
Þrátt fyrir að Sighvatur GK hafi átt þennan risamánuð þá var það áhöfnin á Sighvati GK sem átti
risamánuð. Því að húnlandaði alls 725,8 tonnum í fimm róðrum, eða 145 tonn í róðri.
Stærsti róður bátsins var svo til svipað stór og hjá Páli Jónssyni GK, eða 153,9 tonn. Öllu landað á Skagaströnd, nema að síðasti róður bátsins var í Grindavík og var þá báturinn búinn að vera við veiðar á línuslóðinni utan við Sandgerði – og kom með til Grindavíkur 123 tonn.
Reyndar hefur báturinn Sighvatur GK verið í fréttum núna síðustu daga og ekki út af þessum metafla í nóvember, því að aðrir fjölmiðlar nema Aflafrettir.is skrifa ekki lengur um mokveiði eða metveiði hjá bátum.
Nei, því miður hefur Sighvatur GK verið í fréttum vegna sorgslegs atburðar. Því að sjómaður féll frá bátnum einhverstaðar í Faxaflóanum en báturinn var þar á veiðum í síðasta túr sínum í nóvember og byrjaði desember líka á veiðum þar. Mjög fjölmennt björgunarlið hefur verið við leitar í utanverðum Faxaflóa sem, þegar þetta er skrifað, hefur ekki borið árangur.
Að missa mann er alltaf eitt það versta sem getur hent áhöfn báts og sérstaklega fyrir skipstjóra. Þekktur togaraskipstjóri sem var skipstjóri á togurunum í hátt í 40 ár og hefur reglulega samband við mig, sagði að eitt það allra versta sem hann lenti í á sínum 40 ára ferli sem skipstjóri, var einmitt þetta að missa mann. Þessi togaraskipstjóri lenti í því að missa mann útbyrðis þegar þeir voru við veiðar utan við Vestfirði og sá maður fannst aldrei. Og það eru liðin hátt í 30 ár síðan að þessi togaraskipstjóri missti mann útbyrðis en þetta risti djúpt sár í hjarta hans.
Svo hugur minn er hjá áhöfn Sighvats GK og skipstjóra sem og fjölskyldu þess aðila sem féll úbyrðis.