Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Veiðin glæddist undir lok janúar
Föstudagur 5. febrúar 2021 kl. 07:08

Veiðin glæddist undir lok janúar

Já, það var svona næstum því hægt að bölva öllu í sand og ösku í síðasta pistli, því þá hafði verið mjög svo leiðinleg tíð og mjög erfitt til sjósóknar en síðan hætti þessi hvimleiða norðanátt og bátarnir gátu farið að róa á miðin sín út af Sandgerði – og veiðin var heldur betur góð undir lokin í janúar.

Byrjum á netabátunum.  Erling KE var hæstur með 245 tonn í nítján og þar af var hann með 64 tonn í fjórum eftir að veður lægði, Grímsnes GK var rétt á eftir með 243 tonn í sautján og þar af 71 tonn í fimm róðrum undir lokin, Langanes GK 215 tonn í átján og þar af 43 tonn í fjórum síðustu róðrunum, Maron GK 104 tonn í 23, Hraunsvík GK 45 tonn í fimmtán, Guðrún GK fjórtán tonn í fjórum, Sunna Líf GK 23 tonn í sjö og Halldór Afi GK 24 tonn í fjórtán.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Dragnótaveiðarnar voru fremur tregar framan af janúar og þessi norðanátt gerði mönnum ekkert auðvelt með – en eins og með hina bátanna þá varð veiðin mjög góð undir lokin og Sigurfari GK endaði með 91 tonn í fjórtán og var hann aflahæstur dragnótabáta á Íslandi í janúar. Siggi Bjarna GK var númer þrjú með 72 tonn í fimmtán.

Mesta fjörið, ef þannig má að orði komast, var hjá línubátunum en veiði hjá þeim var mjög góð. Ef við byrjun á stóru bátunum þá var Sighvatur GK með 437 tonn í fjórum og mest 160 tonn í einni löndun, Páll Jónsson GK 383 tonn í fjórum og mest 146 tonn, Jóhanna Gísladóttir GK 373 tonn í þremur og mest 149 tonn, Fjölnir GK 345 tonn í fjórum og mest 128 tonn, Valdimar GK 318 tonn í fjórum og Hrafn GK 309 tonn í fimm.

Hjá minni línubátunum voru mjög margir á veiðum utan við Sandgerði, var góð veiði og jafnvel mokveiði hjá þeim undir lokin. Lítum á nokkra, byrjum á stærri bátunum. Vésteinn GK með 151 tonn í nítján  og þar af 25 tonn í tveimur róðrum undir lokin, Gísli Súrsson GK 148 tonn í sautján og þar af 25 tonn í tveimur, Auður Vésteins SU 121 tonn í tuttugu og Dúddi Gísla GK 65 tonn í tólf og þar af 24 tonn í tveimur, allir að landa í Grindavík.

Mjög mikill fjöldi báta var í Sandgerði og var mjög góð veiði hjá þeim. Margrét GK var með 116 tonn í sextán og þar af 33 tonn í þremur róðrum undir lokin, Daðey GK 115 tonn í sautján og þar af 44 tonn í fjórum róðrum undir lokin, Sævík GK 114 tonn í átján og þar af 33 tonn í þremur róðrum undir lokin, Dóri GK 89 tonn í fimmtán, Óli á Stað GK 84 tonn í tólf og má geta þess að Dóri GK réri ansi stíft undir lokin því báturinn fór í átta róðra á átta dögum. Geirfugl GK 86 tonn í fimmtán og þar af 21 tonn í tveimur róðrum undir lokin, Beta GK 84 tonn í fjórtán og þar af 34 tonn í síðustu þremur róðrum en það má geta þess að Beta GK kom drekkhlaðinn í lokaróðri sínum í janúar með um 14,5 tonn sem fékkst á 14.000 króka. Það er um 33 balar og það gerir um 440 kíló á bala sem er bara mokveiði. Steinunn BA 80 tonn í tólf og Ragnar Alfreðs GK 24 tonn í fjórum, þar af tíu tonn í einni löndun. Það  má geta þess að Ragnar Alfreðs GK er elsti smábáturinn sem rær á línu frá Suðurnesjum og þessi bátur á sér ansi langa sögu því hann var smíðaður árið 1978 á Skagaströnd og hefur heitið þessu nafnið Ragnar Alfreðs GK síðan árið 2007. 

Skipstjórinn og eigandi af Ragnari Alfreðs GK er Róbert Georgsson, eða Robbi eins og hann er kallaður. Hann hefur stýrt báti sínum núna í um fjórtán ár og má segja að hann sé ufsakóngur Íslands, miðað við smábátanna, því flest öll sumur þá hefur Robbi verið með Ragnar Alfreðs GK á handfærum á ufsanum og hefur verið aflahæsti smábáturinn á landinu miðað við þá sem veiða ufsa. Ansi margir róðrar hjá bátnum hafa verið um og yfir tíu tonn eftir veiðar á handfærin. Ragnar Alfreðs GK er orðinn 43 ára gamall en er hörkubátur eins og Robbi segir sjálfur og einn af fáum bátum sem voru smíðaðir á Skagaströnd sem eru svo til óbreyttir. 

Það er reyndar annar bátur í Sandgerði sem var líka smíðaður á Skagaströnd en er það Sunna Líf GK. Sá bátur var líka smíðaður árið 1978 en búið er að breyta honum nokkuð, meðal annars endurnýja og lengja aftur bátinn, stærra dekkpláss en brúin á báðum bátunum er svo til sú sama.

Texti: Gísli Reynisson // [email protected]