Mikið aflahrun í Faxaflóa
Maður er varla fyrr búinn að skrifa að nýr mánuður sé kominn en sá er runninn sitt skeið. Nú er september liðinn, mánuðurinn sem jafnan hefur verið sá fjörugasti hjá bátum á dragnót í Faxaflóa — eða „bugtinni“ eins og það er gjarnan kallað.
Óhætt er að segja að mikið aflahrun hafi orðið í flóanum, einkum í þorski. Flestir bátarnir sem hófu veiðar þar snemma í september eru nú farnir, nema tveir bátar Nesfisks, Siggi Bjarna GK og Benni Sæm GK, sem héldu út allan september á sömu slóðum útaf Garði og inn með ströndinni.
Nesfiskbátarnir veiddu vel á dragnót
Það gekk vel hjá þessum tveimur dragnótabátum. Siggi Bjarna GK var með 120 tonn í 14 róðrum og Benni Sæm GK með 106 tonn í 14 róðrum. Uppistaðan í aflanum hjá þeim var koli, og mest af sandkola.
Línubátarnir norðan og austan með mokveiði
Línubátarnir, sem flestir hafa verið fyrir austan eða norðan, veiddu afar vel í september. Áhöfnin á Páli Jónssyni GK mokveiddi og endaði með 641 tonna afla í sex löndunum. Aflanum var að mestu landað á Djúpavogi og Neskaupstað, þar sem báturinn var mest að veiðum.
Sighvatur GK var með 476 tonn í fjórum löndunum, og báðir bátarnir voru svo til jafnir í stærstu löndunum sínum. Páll Jónsson GK var mest með 149,5 tonn og Sighvatur GK mest með 149,6 tonn.
Óli á Stað aflahæstur í 30 tonna flokki
Í flokki 30 tonna báta var Óli á Stað GK frá Stakkavík ehf. aflahæstur. Hann réri allan september frá Siglufirði og gekk mjög vel, alls 260 tonn í 25 róðrum. Í síðustu tveimur róðrunum í mánuðinum veiddi báturinn samanlagt 43 tonn.
Línubátar frá Suðurnesjum byrjaðir að róa
Aðeins tveir línubátar réru frá Suðurnesjum í september, báðir frá Sandgerði. Margrét GK var með 18 tonn í þremur róðrum og Særif SH, sem einnig landaði á Arnarstapa, var með 70 tonn í sjö róðrum.
Þeir hafa báðir hafið róðra nú í október og byrjunin lofar góðu. Særif SH er með 24 tonn í tveimur róðrum og Margrét GK með 21 tonn í þremur. Búast má við að línubátum hér fyrir sunnan fjölgi eitthvað þegar líður á október.
Netabátarnir rólegir í september
Netaveiðin var fremur lítil í september. Bátarnir sem veiða fyrir Hólmgrím reru flestir í um 12 róðra, en þar var Halldór Afi KE aflahæstur með 28 tonn í 12 róðrum. Emma Rós KE var með 24 tonn í 12, Addi Afi GK með 18 tonn í 12, Sunna Líf KE með 27 tonn í 12 og Svala Dís KE með 12,5 tonn í átta róðrum.
Október byrjar ágætlega
Allir þessir bátar hafa þegar landað afla í október og byrjar vertíðin ágætlega. Halldór Afi KE hefur landað 4,8 tonnum í fjórum róðrum og Sunna Líf KE 5 tonnum í fjórum róðrum. Emma Rós KE er með 4,1 tonn í tveimur róðrum og Svala Dís KE með 1 tonn í tveimur róðrum.
Erling KE er í slipp, en Friðrik Sigurðsson ÁR, sem mun veiða fyrir Hólmgrím í vetur, er byrjaður austan við Vestmannaeyjar og eltir þar ufsa. Hann hafði ekki landað þegar þessi pistill var skrifaður.