Til hamingju með daginn Þórunn
Það er komið að sumarsólstöðum, þegar sól er hæst á himni og dagur allan sólarhringinn. Þessi dagur 21. júní hefur sérstakt gildi fyrir mig, dagur gleði og hamingju. Þennan dag fyrir tuttugu og fimm árum hitti ég núverandi eiginkonu mína fyrst, í Jónsmessugangu á Fimmvörðuhálsi og kvæntist henni sama dag fyrir sautján árum síðan.
Ég hafði gaman að því að ferðast, en lagði ekki neitt sérstaklega mikið upp úr nestinu í gönguferðum, rúsinur, hnetur og kannski ein samloka var fínt fyrir mig. Ég verð að viðurkenna að ég tók fljótlega eftir konu í stórum hóp göngumanna, þar sem hún hljóp áfram eins hind, fagurlega sköpuð og greinilega í góðu formi, en var öllum lokið í nestishléi á miðjum Fimmvörðuhálsi þegar hún tók fram nestisboxið. Þar var allt þrælskipulagt og hver brauðsneið listilega vel smurð eins flott og gerist á fínustu veitingastöðum. Fikraði mig nær henni í von um brauðmoli félli úr nestisboxinu, og síðan hefur hún ekki losnað við mig.
Sumarsólstöður eru þannig tími breytinga hjá mér, skemmtilegra breytinga með allskonar áskorunum. Þannig er það líka núna, nýtt skeið er hafið á ævinni. Tímin til að lifa og njóta, setjast í helgan stein eins sagt er. Framundan eru flutningar í sveitinna þar sem við höfum komið upp sumarhúsi í litlum skógi við Áshildarmýri þar sem fyrsti mótmælafundur á Íslandi fór fram. Árið 1496 söfnuðust djarfir bændur úr Árnesþingi þar saman til að mótmæla ánauð og kúgun danskra yfirvalda og kröfðust umbóta í stjórn landsins. Það fer vel á að barnabarnabarn síðasta danska landshöfðingjans skuli setjast að á þeim stað, og skammast sin hæfilega.
En þessi lokaorð áttu að fjalla um sumarsólstöður, sólina og sumarið, ástina og lífið. Ég ætla að leyfa mér að ljúka honum á þann hátt, í krafti þess að eiga lokaorðið sem enginn má mótmæla. Til hamingju með daginn Þórunn, framtíðin er okkar.