Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Þrjúbíóstress miðaldra konu
Föstudagur 21. maí 2021 kl. 07:19

Þrjúbíóstress miðaldra konu

Ég áttaði mig á því í síðustu viku að ég hef mun meiri þörf fyrir röð og reglu en ég hef hingað til haldið. Ég er alltaf verið frekar skipulögð, en á sama tíma samt alltaf álitið mig temmilega kærulausa og með íslenska „þetta reddast“ genið mjög framarlega í genabankanum. Ég hef gert grín að manninum mínum sem þolir ekki þegar það er frjálst sætaval í bíó eða leikhúsinu, hvað þá í flugvélum. Hann stressast allur upp og vill þá alltaf vera mættur löngu fyrir opnun þannig að hann verði örugglega fyrstur í röðinni til að velja sér sæti. Í tilhugalífinu gátum við aldrei vangað síðasta lagið á skemmtistöðum borgarinnar þar sem hann þurfti alltaf að vera farinn út í síðasta lagi korter fyrir þrjú til að vera örugglega fyrstur í leigubílaröðinni. Sem, þeir sem þekkja mig vita, að er ekki alveg í mínum anda að yfirgefa partýið áður en ljósin eru kveikt. Ég kalla þetta heilkenni mannsins míns „þrjúbíóstressið“ þar sem þetta minnti mig helst á kraðakið fyrir framan dyrnar í Félagsbíói í þrjúbíó þegar allir vildu ná bestu sætunum þegar loksins var hleypt inn. Og þar var það ekkert endilega sá sem var fyrstur í röðinni sem náði bestu sætunum, heldur sá sem var sterkari og fljótari að hlaupa. Engin sanngirni í því endilega.

Og í síðustu viku upplifði ég þrjúbíóstress á áður óþekktu háu stigi, þegar það voru að mér fannst allir og amma þeirra búnir að fá boð í bólusetningu nema ég og aðrir í mínum góða 1967 árgangi. Ég hafði nefnilega beðið mjög róleg eftir að það kæmi að mér. Það var plan í gangi, byrjað á framlínufólki og forgangshópum og svo var farið niður eftir aldursröðinni. Þolinmóð og pollróleg beið ég í röðinni. Þangað til að samfélagsmiðlarnir fóru að fyllast af myndum af mér miklu yngra fólki í dúndrandi diskóstemmningu í Laugardalshöllinni. Allt í einu var ekkert plan, röðin var orðin að þrjúbíókapphlaupi. Og ég missti kúlið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég vil ekki viðurkenna að ég hafi verið haldin bólusetningaröfund, ég samgladdist öllum sem voru á undan mér í röðinni. Ég var að upplifa eitthvað allt annað, ég var haldin raða- og skipulagsþarfarröskun á háu stigi. Ég lét þetta fara ótrúlega mikið í taugarnar á mér, sá samsæri í hverju horni og fannst þetta heilt yfir bara frekar ósanngjarnt. Ég opinberaði frústrasjón mína á samfélagsmiðlunum og leið pínu betur að finna að ég var ekki ein um þessa upplifun. Jafnaldrar mínir staðfestu samsærið – það var ekki lengur röð og við sátum eftir. Þrjúbíóið var að byrja og allir hinir voru fljótari að hlaupa.

En svo kom sunnudagurinn og sms-ið með boðinu í bólusetningu á miðvikudaginn. Þegar þú, lesandi góður lest þennan pistil, verð ég nýbúin að fara í minn fallegasta stuttermabol og fá mína langþráðu sprautu. Og, eins og segir í hinni helgu bók: „Þeir síðustu verða oft fyrstir“ því mér er boðið upp á Janssen sem þýðir að ég verð fullbólusett eftir eina sprautu. Ég var sum sé þessi í þrjúbíó röðinni sem var eftir allt saman fljótust að hlaupa.