Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Pistlar

Þjóðarsálir
Föstudagur 11. febrúar 2022 kl. 13:28

Þjóðarsálir

Lokaorð Ragnheiðar Elínar

Ótrúlegt en satt, en í næstu viku eru sex mánuðir síðan við fjölskyldan fluttum til Parísar. Á sama tíma og mér finnst við vera nýlent og ekki vita neitt og kunna neitt, finnst mér eins að við séum búin að vera hér rosalega lengi og vera allt að því innfædd. Það eru að vísu þó nokkrar ýkjur, en við erum samt búin að upplifa sumar, haust og vetur í París og nú styttist í vorið. 

Það er ótrúlega skemmtilegt og sannkölluð forréttindi að fá tækifæri til að kynnast nýju samfélagi og nýrri menningu, og maður sér fljótlega að það er ákveðin innistæða fyrir stereótýpunum sem við þekkjum. Við Helgi Matthías vorum t.d. að labba í skólann um daginn og sáum virðulegan jakkafataklæddan mann með baguette í fanginu og sígarettu í munnvikinu að baksa við að taka upp hundakúk frá franska bolabítnum  sem hann var með – franskara gat það varla verið. 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Það er annar taktur hér í samfélaginu en heima, hverfið heldur utan um mann og allt er innan seilingar. Litlar fjölskyldureknar verslanir og veitingastaðir eru úti um allt og opnunartími þeirra allt öðruvísi en við eigum að venjast. Bakaríið er opið langt fram á kvöld til þess að við getum nú keypt okkur nýbakað baguette allan daginn, en svo lokað í tvo daga í miðri viku þannig að bakarafjölskyldan geti hvílt sig. Og þá fer maður bara í næsta bakarí á meðan. Veitingastaðir eru margir hverjir lokaðir einn til tvo daga í viku og alltaf sama fólkið á vaktinni þess á milli. Sunnudagsmorgnar eru annasamir í hverfinu, risastór markaður með fersk blóm, ávexti, grænmeti, kjöt, fisk og allskonar dregur að sér fjölda fólks og allar verslanir opnar til rúmlega hádegis. En þá dettur líka allt niður og varla manneskja á ferli.  Fyrst eftir að við fluttum lá við að við myndum svelta á sunnudagskvöldum því við komum að lokuðum dyrum á flestum af matvörubúðunum okkar og uppáhalds hverfisveitingastöðunum. En svo lærir maður inn á taktinn og spilar bara með.

Það sem er líka skemmtilegt er að upplifa hvernig maður kynnist frönsku þjóðarsálinni í gegnum tungumálið og orðnotkunina. Ég ætla mér að ná fullkomnu valdi á frönskunni (engin smá markmið hér) og er með frábæran kennara, Madame Catherine Piece, sem ég er í einkatímum hjá eins oft í viku og ég kem því við. Frakkar geta verið frekar alvarlegir og áhyggjufullir, jafnvel svartsýnir á köflum. Vinna mikið og bera heiminn dáldið á herðum sér. Ég hætti t.d. fljótlega að spyrja vinnufélaga minn á næstu skrifstofu hvernig hann hefði það því ég fékk alltaf sama svarið – það væri svo mikið að gera og hann væri svakalega „fatigue“. Það er ekkert endilega málið að viðurkenna að það sé gaman í vinnunni, þetta á að vera erfitt. „C’est la vie!“ afsakar það svo allt saman. En svo er það þetta með gamanið, á frönsku segir maður nefnilega ekki „góða skemmtun“, heldur „profitez bien“ sem hægt væri að þýða „gangi þér vel að græða“. Og hvort sem þú ert að óska einhverjum góðs dags eða þess að viðkomandi hafi það gott í fríinu þá segirðu „bon courage“, eins og viðkomandi væri á leiðinni í stríð. 

Það er því einhvern veginn meira drama í frönsku þjóðarsálinni en í þeirri íslensku. Það er því ekkert skrýtið að þeim finnist ég ótrúlega bjartsýn þegar ég segist ætla að tala reiprennandi frönsku innan nokkurra mánaða. Þeir vita nefnilega ekki að „þetta reddast“ lýsir okkar þjóðarsál best!

Ragnheiður Elín Árnadóttir